141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns. Þarna er í raun og veru um að ræða nýja úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem er sett af stað í tengslum við löggildingu á Árósasamningnum og ákveðinni hagræðingu sem við sáum í því að steypa saman fleiri en einni úrskurðarnefnd, en um leið held ég að við höfum öll verið meðvituð um það, bæði ég sem flutti málið og ekki síður nefndin og þingið, að nefndin þyrfti tíma til að fá að feta sig áfram og við þyrftum að sjá hvernig kærumálunum mundi vinda fram. Við gátum ekki séð fyrir hversu fjölbreytt eða mörg erindi nefndin fengi á grundvelli nýrra laga og í ljósi þess var ákveðið að við mundum meta stöðu nefndarinnar eftir því sem tímanum liði.

Varðandi þann vanda sem við sitjum uppi með eftir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, þ.e. þau mál sem höfðu hrannast upp, þá er það sérstaklega til skoðunar. Ég tek undir mikilvægi þess í ljósi þess að umhverfismál hafa oft legið undir ámæli varðandi málshraða, afgreiðslufresti o.s.frv. En umhverfislöggjöfin er morandi í slíku þannig að eðli málsins samkvæmt kemur oftar til núnings af þeim völdum í þeim málaflokki en víða annars staðar. Þetta er til skoðunar vil ég fullvissa hv. þingmann um í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og ég vænti þess að við munum síðan skoða verkefni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir því sem reynslan kemur í hús.