141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningar hans. Vegna fyrirspurnar hans í lokin varðandi sérstakt framlag í tengslum við svokallaða IPA-styrki þá erum við að tala um framlag til Náttúrufræðistofnunar á grundvelli þeirrar vinnu til kortlagningar á íslenskri náttúru sem er í tengslum við og til að uppfylla alþjóðlega samninga sem Ísland á aðild að. Þess vegna er hér ekki aðlögunarstyrkur á ferð heldur miklu frekar til að uppfylla væntingar okkar til skráningar á íslenskri náttúru og samræmist öðrum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur bæði í alþjóðlegum samningum og annars staðar.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um eða velti vöngum yfir, þ.e. stöðu kærunefndar, þá er þarna um að ræða leið fyrir almenning, fyrir borgara, einstaklinga, félagasamtök og aðra hagsmunaaðila til að fá ásjá kærunefndar. Með innleiðingu Árósasamningsins og aðkomu almennings að ákvarðanatöku á fyrri stigum ættum við, þegar Árósasamningurinn hefur fest rætur í samfélaginu, að fækka tilefnum til að almenningur sjái ástæðu til að kæra ákvarðanir. Þá erum við ekki lengur á þeim stað að almenningur komi svo seint að málum að hann komi að orðnum hlut og þurfi að kæra þær niðurstöður með tilkostnaði og öllu því sem því fylgir heldur geti almenningur átt þetta samtal við stjórnvöld á fyrri stigum og þar með væntanlega náð þeim markmiðum Árósasamningsins að auka lýðræði og opna stjórnsýslu og koma í veg fyrir (Forseti hringir.) núningsfleti eins og nokkur er kostur.