141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn athugasemdir og spurningar hv. þingmanns. Í fyrsta lagi varðandi þá ríku hagsmuni sem eru í kærumálum þá tek ég heils hugar undir þau mál og mér finnst það lofa góðu þegar hv. þingmaður vekur máls á því að kærunefndin þurfi meira fjármagn því það geti þá verið fyrirboði um að þverpólitískur vilji og skilningur geti ríkt um það.

Varðandi hinar tímabundnu fjárheimildir um ráðstöfun svokallaðra IPA-styrkja þá get ég svarað hv. þingmanni að því er varðar yfirstandandi ár og þetta tiltekna verkefni. Ég hef það á reiðum höndum, það er 125 millj. kr. á yfirstandandi ári til þessa tiltekna verkefnis og það er aðeins meira á næsta ári eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Gerð er grein fyrir þeirri fjárhæð undir Náttúrufræðistofnun Íslands til ráðningar á sérfræðingum og þeirri sérfræðiþekkingu sem þarf að vera fyrir hendi til að umrædd skráning geti átt sér stað.

Hvað varðar spurningar hv. þingmanns um ofanflóðasjóð er meiningin að halda framkvæmdastigi á ofanflóðavörnum óbreyttu milli áranna 2012 og 2013.