141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt í þessu samhengi öllu að gera sérstaklega grein fyrir því að á grundvelli þeirra skipulagslaga sem við samþykktum í þingsal og gengu í gildi árið 2010 er gert ráð fyrir að mælt verði fyrir landsskipulagsstefnu á komandi vetri. Þar lagði ég áherslu á þrjú meginmál: Í fyrsta lagi skipulag miðhálendisins, í öðru lagi byggðamynstur á landinu öllu og í þriðja lagi skipulag strandsvæða og hafsvæða. Þessi viðfangsefni eru því öll undir. Ég vænti þess að landsskipulagsstefnan eins og hún er eftir að Skipulagsstofnun og starfshópar hennar hafa unnið málið fari fljótlega í opið umsagnarferli. Í kjölfarið á því ber mér samkvæmt lögunum að útbúa þingsályktunartillögu sem ég fer síðan með í þingið til umræðu. Þá fjöllum við væntanlega um stefnu íslenska ríkisins í skipulagsmálum miðhálendis, byggðamynstur, skipulag strandsvæða og aðra þá þætti sem landsskipulagsstefnan felur í sér.