141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir umræðu um málið.

Ef maður lítur á heimasíðu auðlindaráðuneytisins á það að stunda rannsókn á auðlindum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna stendur þá á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar sem rannsakar að mínu mati auðlindir, þ.e. sjávarauðlindir, að hún heyri undir sjávarútvegsráðuneytið? Af hverju stendur á heimasíðu Orkustofnunar sem rannsakar hina auðlindina á Íslandi, sem er orkan, að hún heyri undir iðnaðarráðuneytið? Er þetta misskilningur eða heyra þær tvær stofnanir sem rannsaka auðlindir landsins ekki undir auðlindaráðuneytið eins og vera ber?

Þá langar mig að spyrja: Í fjárlögum er gert ráð fyrir því að heilar 18–20 milljónir fari til aukningar rekstrarkostnaðar vegna fjölgunar um tvö stöðugildi vegna viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir. Þetta er mér mikið hjartans mál og ég veit að hæstv. ráðherra hefur sömu skoðun, að nota eigi markaðinn til að finna út verð og berjast gegn losun koltvíoxíðs. Þessi markaður var tekinn upp 2005 í Evrópu.

Það kom fram í fréttum t.d. hjá Icelandair frá 20. desember 2011 að þeir kaupa losunarheimildir fyrir hundruð milljóna. Af hverjum? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Getur verið að þeir hafi keypt þær af breska ríkinu?

Í fréttum 26. september 2012 á RÚV kom fram að losunarheimildir mundu gefa 600 milljónir á þessu ári og færu svo hratt vaxandi. Í ráðuneytinu eru menn að setja 18–20 milljónir í þetta dæmi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hver er metnaður hennar gagnvart því að nota þennan markað til að berjast gegn hitnun jarðar og losun koltvíoxíðs? Sér hæstv. ráðherra ekki að við munum geta aukið samkeppnisforskot okkar t.d. í álframleiðslu og í mörgum öðrum þáttum sem nota hreina íslenska orku? Það þarf ekki að borga nándar nærri eins mikið og aðeins brot af koltvíoxíðslosun við hreina íslenska orku miðað við það sem gengur erlendis. Orka mun hækka mikið í verði um allan heim nema á Íslandi. Mun þá ekki aukast þrýstingur umhverfisverndarsinna um allan heim að Íslendingar nýti meira af þessari hreinu orku sinni til að bjarga mannkyninu?