141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er viðvarandi viðfangsefni og efni til vangaveltna með ráðherra sem vill bora og öðrum sem vill ekki bora. Kannski er brýnast af öllu að halda því til haga að þarna togast á mjög krefjandi hagsmunir og sterk sjónarmið. Vegna þess að hv. þingmaður endaði framlag sitt á því að ræða sérstaklega um olíuleit er sannarlega falin í því ákveðin mótsögn að vera annars vegar með háleit markmið og áætlanir um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og leitast hins vegar af fremsta megni við að finna enn meira jarðefnaeldsneyti. Það er mikilvægt að taka það upp hér eins og annars staðar að þarna er um að ræða annars vegar langtímahagsmuni og hins vegar hagsmuni til skemmri tíma jafnvel.

Þessi umræða mun væntanlega verða enn sterkari á Íslandi eins og annars staðar. Um er að ræða margar ákvarðanir fyrir framtíðina og jafnvel fyrst og fremst þá staðreynd að við búum ekki við þá þekkingu eða þá innviði í okkar kerfi sem þarf til að taka þessar spurningar til endanlegrar skoðunar og yfirvegunar. Ég ætla að leyfa mér að vera efasemdarmegin í þessu.

Varðandi síðan tölurnar sem hv. þingmaður nefndi, um tekjur af uppboði á loftslagsheimildum, þá erum við að tala um áætlunartölur. Það kemur þá væntanlega í ljós með haustinu og væntanlega enn betur á næsta ári hversu vel þær koma í hús.

Almennt held ég að áhyggjuefni mín snúist um markaðshyggjuna í hinu stóra samhengi vegna þess að ég held að markaðshyggjan, sem hv. þingmaður hefur miklar mætur á, og græðgisdrifin samfélög séu einmitt það sem heimurinn ætti að hafa mestar áhyggjur af og séu ekki leiðin til að takast á við stærstu viðfangsefni 21. aldarinnar, (Forseti hringir.) því miður fyrir hv. þingmann.