141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er formaður utanríkismálanefndar. Eðli máls samkvæmt hefur hann væntanlega mjög glögga mynd af því hvernig utanríkisþjónustan vinnur. Hann og þeir þingmenn sem eru í erlendu samstarfi fyrir hönd þingsins þurfa mjög oft á henni að halda. Það er því mjög gaman að heyra þann vitnisburð sem hv. þingmaður gefur utanríkisþjónustunni. Ég sjálfur er þeirrar skoðunar að hún sé miðað við naum efni að vinna frábært starf.

Ég rakti það hér áðan hvernig búið er að skræla hana svo að segja inn í kjarnann, um of tel ég. En það er eitt sem menn gleyma stundum. Það er eitt leynivopn sem Ísland hefur í utanríkisþjónustunni og það er kerfi ræðismanna sem hlutfallslega er sennilega það umfangsmesta sem nokkurt Norðurlandanna hefur. Við erum með 400 ræðismenn. Þeir vinna allir ólaunað og eru allir reiðubúnir til að koma til liðsinnis og aðstoðar ef á bjátar. Í sumum löndum, eins og til dæmis þar sem ógæfusamir landar hafa ratað í fangelsi og búa þar stundum við illan kost í löndum þar sem mannréttindi eru skoðuð með öðrum gleraugum en hér heima á Íslandi, vinna þeir einfaldlega frábært starf þó að það sé oft og tíðum vanþakkað. Ég vildi að þetta kæmi fram.

Að því er varðar síðan afstöðu hv. þingmanns til þróunarmála þá kemur hún mér ekki á óvart. Hv. þingmaður hefur alltaf verið mikill áhugamaður um framgang þeirra. Það sem mér finnst gleðilegt varðandi þann málaflokk er að mér finnst eins og, með nokkrum undantekningum þó, hafi orðið ákveðin kynslóðabreyting í þinginu gagnvart þeim málaflokki. Viðhorfið til hans skarast millum allra flokka. Mér þótti það til dæmis mjög jákvætt hve Sjálfstæðisflokkurinn, í umræðum á sínum tíma, var jákvæður og formaðurinn sérstaklega svo að ég segi það bara aftur. Það þykir mér benda til þess að um þennan málaflokk sé sátt og það er gleðiefni. Ég tel að það verði ekkert létt verk fyrir utanríkisráðherra framtíðarinnar, þó ég taki það fram að ég sé alls ekki að íhuga að láta af störfum alveg á næstunni, að verja málaflokkinn og fylgja áætluninni. En þá treysti ég á þá flokka sem nú eru í stjórnarandstöðunni og tóku höndum saman með þeim sem í bili eru með stjórnartaumana í sínum höndum.