141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir miður að hv. þingmaður hafi ekki tök á því að koma aftur hingað upp til að bregðast við því svari sem ég ætla að veita henni hér, en veit að við eigum eftir að ræða skuldavanda heimilanna ítarlega á þessu haustþingi. Þetta er eitt af forgangsmálum okkar framsóknarmanna. Ég veit að hv. þingmaður hefur sömu löngun til að ræða þessi mál frekar í þinginu.

Ég tek það fram að við framsóknarmenn erum síður en svo að segja skilið við það að aðstoða skuldug heimili með því að leggja bara þessa hugmynd fram, hún er hluti af lausninni. Munurinn á þeirri leið sem við mæltum fyrir í ársbyrjun 2009 — og ég veit að hv. þingmaður er mér sammála — er að þá gátum við látið kröfuhafana axla algjörlega þann kostnað sem flöt leiðrétting lána skilaði en nú er veruleikinn aðeins öðruvísi. Við þurfum að skoða með hvaða hætti við getum haldið áfram að koma til móts við skuldug heimili. Þetta er innlegg í þá umræðu. Við eigum eftir að átta okkur fyllilega á því hversu marga milljarða við viljum verja til að hvetja skuldug heimili til þess að greiða inn á höfuðstól lána sinna og hljóta þá umbun sem fylgir því og við viljum nota skattkerfið í.

Ég minni á að við erum ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum. Fyrir hrun voru til að mynda veittir afslættir til hlutabréfakaupa þannig að þetta er engin ný leið. Við erum að mínu mati að takast á við erfiðasta vanda samfélagsins í dag, sem snertir tugþúsundir fjölskyldna, og koma til móts við erfiða stöðu þeirra og þann drunga sem fylgir því að horfa upp á húsnæðislán sín hækka mánuð eftir mánuð, alveg sama hvað fólk borgar.

Ég tel að við hv. þingmaður séum sammála um að við þurfum að halda áfram að grípa til róttækra aðgerða til að koma til móts við skuldug heimili.