141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um almenna niðurfærslu á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar. Eins og áður fagna ég hverri nýrri hugmynd sem kemur fram. Hún getur ekki annað en bætt umræðuna og þess vegna þarf að skoða þetta mál líka í þeirri nefnd sem fær hana til umfjöllunar og skoða hvaða kostir og gallar fylgja henni.

Lagt er til að þar sem verðtryggð lán hafa hækkað umfram 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans verði það hreinlega fellt niður, alveg óháð því hvenær lánið var tekið. Þeir sem tóku lán fyrir árið 2004 eru enn í hagnaði. Íbúðin sem þeir keyptu fyrir lánið hefur hækkað hlutfallslega meira en lánið. Þannig eru þeir í hagnaði og eiga samt að fá niðurfelldar verðbætur á láninu sínu sem þeir tóku einhvern tímann upp úr árinu 2000. Þetta finnst mér ekki sanngjarnt. Alveg sérstaklega finnst mér ósanngjarnt að skattleggja lántakendur framtíðarinnar, eins og hér er lagt til, til að standa undir þessum kostnaði. Það er alltaf einhver sem greiðir, á endanum eru það í rauninni alltaf heimilin sem greiða. Það sem ríkið greiðir borga skattgreiðendur, þ.e. heimilin, og það sem fyrirtæki eða bankar greiða borga eigendur þeirra og geta þar af leiðandi ekki greitt eitthvað annað, laun eða vexti. Margir hafa horft til þess að svokallaðir afskriftasjóðir bankanna séu allt of digrir en þeir eru í raun eign kröfuhafanna, þeirra sem hafa tapað 7 þús. milljörðum á Íslandi og eru ekki tilbúnir til þess að láta skerða eignir sínar frekar með lagasetningu frá Alþingi. Það er viðbúið að það kæmi skaðabótakrafa vegna eignaupptöku ef það yrði gert. Það gekk að hafa þessa afskriftasjóði svona myndarlega vegna þess að Kaupþing og Glitnir fóru til kröfuhafanna en Landsbankinn er í raun í eigu fjármálaráðuneyta Bretlands og Hollands. Þeir eru stærstu kröfuhafarnir, eiginlega þeir einu.

Eins og ég segi er mjög mikilvægt að skoða þetta. Þarna er verið að flytja yfir í Seðlabankann. Það er ekki talað um hvort Seðlabankinn beri einhverja ábyrgð á þessu. Hann er með ríkisábyrgð og ef greiðslurnar skyldu að einhverjum hluta bregðast er það hann sem stendur væntanlega á bak við þetta nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Verðtrygging hefur mikið verið rædd og nokkuð af misskilningi. Þannig er mál með vexti að laun hækka reglulega. Þau hafa meira að segja hækkað umfram verðtryggingu síðustu tvö, þrjú árin, og fasteignir sömuleiðis. Fasteignir hafa hækkað meira en verðtrygging síðustu tvö, þrjú árin þannig að staðan er að batna, bæði hvað varðar greiðslugetu almennings og eignastöðu. Vandamálið er sá hópur fólks sem keypti íbúð á tímabilinu frá október 2004 til nóvember 2009, ef ég man rétt. Sá hópur er ekki stór, frú forseti. Ég er með upplýsingar frá ríkisskattstjóra um að það séu um 13 þús. manns, 13 þús. einstaklingar og samskattaðir, þ.e. gróft séð 13 þús. heimili sem tóku yfirleitt lán til íbúðakaupa af á að giska 200 þús. framteljendum. Þetta er ekkert mjög stór hópur og vandinn er ekki voðalega stór þó að hann sé mjög sár fyrir þennan hóp. Mér finnst dálítið slæmt að koma með almennar lausnir sem leysa vanda allra, líka þeirra sem keyptu íbúð árið 2009 eftir að verðið var lækkað. Nú er verð að hækka umfram verðlag. Það fólk græðir á lántökunni og það á að fá verðbætur felldar niður að einhverju leyti og öllu leyti í þessu frumvarpi.

Síðan er spurningin með afnám verðtryggingar. Ég er ekkert voðalega hlynntur verðtryggingu og síst af öllu að hún sé þvinguð eins og er hjá Íbúðalánasjóði. Fólk getur ekki tekið önnur lán hjá Íbúðalánasjóði en verðtryggð. Mér finnst að fólk eigi að hafa val. Hins vegar vil ég benda fólki á að það að taka óverðtryggt lán er engin lausn. Það leysir ekki fólk undan áhættu. Það er miklu meiri áhætta í reynd ef það skyldi koma verðbólguskot aftur. Ef menn ætla ekki að ganga á hlut sparifjáreigenda, þess fólks sem sýnir ráðdeild og sparnað, og lífeyrissjóða verður að hækka vexti jafnvel upp í 10–20% sem er óbærilegt fyrir venjuleg heimili. Ef verðbólgan yrði kannski 10% þyrfti að borga 12% af láninu. Menn með 30 millj. kr. lán. þyrftu að borga 3,6 milljónir á ári í vexti. Engin fjölskylda getur borgað 300 þús. kr. á mánuði bara í vexti. Svo getur vel verið að menn ætli sér að snuða sparifjáreigandann. Það er verið að gera það núna og búið að gera það um árabil. Vextir á innlánsreikningum eru neikvæðir. Fólk tapar á því að sýna ráðdeild og sparnað.

Það er kannski ágætismarkmið hjá einni þjóð að bara rústa sparnaðinum alveg. En ég minni á að ef ekkert er sparað er heldur ekkert lánað. Við bjuggum við það fyrir langalöngu að fólk fékk ekki lán nema eftir mikil harmkvæli og þurfti að þekkja rétta menn og vera í réttum flokki. Það getur vel verið að menn stefni í þá stöðu eftir einhver ár með því að ganga alltaf á rétt sparifjáreigenda. Í þessari tillögu er ekki minnst á þann hóp fólks, enda er hann kannski hverfandi.

Ég vil gjarnan að menn skoði þetta mjög vel. Ég vara við því að banna verðtryggingu alveg, hún hefur á vissan hátt bjargað heimilunum í gegnum verðbólguskotið og gert fólki kleift að ráða við lánin sín. Ég vil hafa val hjá fólki, líka hjá Íbúðalánasjóði, að fólk geti valið hvar það tekur lán.

Skattlagning á eignir lífeyrissjóða er nefnd. Ég vara eindregið við slíku. Ég er margbúinn að benda á það að skattlagning á lífeyrissjóði þýðir skattlagning á almennu lífeyrissjóðina, ekki á þá opinberu. Þá þarf að hækka iðgjaldið hjá opinberu sjóðunum, álögur á skattgreiðendur, þ.e. hina. Þeir eiga að sæta því að lífeyrissjóðurinn þeirra sé skertur og það er engin bakábyrgð þar þannig að það þarf að skerða lífeyri á móti og þeir þurfa jafnframt að borga hærri skatta.

Ég vara eindregið við sérhverri skattlagningu á lífeyrissjóði vegna þess að hún kemur bara niður á almennum launþegum í landinu en ekki opinberum starfsmönnum. Hún kemur tvöfalt niður á almennum launþegum í landinu. Hér er gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir séu skattlagðir sem og lántakendur framtíðarinnar sem mér finnst líka óréttlátt af því að þetta er algild regla sem gildir líka fyrir þá sem tóku lán fyrir löngu og hafa í reynd hagnast á láninu af því að íbúðin hefur hækkað meira en lánið þrátt fyrir verðtryggingu.