141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[17:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir þetta frumvarp um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Að sjálfsögðu gleðst ég yfir því að ríkið skuli vera að einkavæða fjármálafyrirtækin í þessum mæli. Reyndar spyr ég af hverju Landsbankinn á 70% að eiga í fjármálafyrirtæki. Er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar eða eitthvað annað? Hvers vegna er Íbúðalánasjóður þá ekki líka seldur, þ.e. 30% af honum, en hann er stærsta fjármálastofnun landsins í lánum til húsnæðiskaupa? Ríkið á hann alfarið með ekkert sérstaklega góðum árangri.

Hvar varð til svipað frumvarp þegar ríkið seldi hlut í bönkunum sem ríkið stofnaði í kjölfar hrunsins? Ríkið stofnaði þessa þrjá banka, þeir voru allir fyrst í ríkiseigu og síðan seldi ríkið kröfuhöfunum og slitastjórnunum hlutinn. Hvar er heimild til ríkissjóðs til að selja þennan hlut sem aðrir en ríkið eiga núna í Arion banka og Íslandsbanka?