141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[17:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þetta er kannski tímanna tákn um hvert við erum komin í kreppunni en okkur greinir kannski á um það. Ég verð að játa það að mér finnst algjörlega galið að ætla að selja núna eignarhluti ríkisins í þessum þremur föllnu bönkum, og endurreistu, á meðan ríkið ábyrgist allar innstæður. Við erum með ríkisábyrgð á öllum innstæðum, hún hefur kannski ekki lagalegt gildi en við vitum að hún er þarna og þessu hefur verið lofað. Og nú ætlum við bara að selja þetta þannig að ríkið eigi ekkert í Arion banka og ekkert í Íslandsbanka en halda áfram með ríkisábyrgðina. Ég sé ekki að menn hafi leyst það mál.

Við höfum náttúrlega gert ýmis mistök að mínu mati við endurreisn bankanna. Við erum að endurreisa innlenda fjármálakerfið í nánast óbreyttri mynd og fyrir hrun. Við höfum gert það á kostnað skuldsettra heimila. Ég er á móti því að það séu teknar arðgreiðslur út úr bönkunum, til ríkisins eða annarra eigenda bankanna, eða að ríkið noti söluhagnað sinn í eitthvað annað en leiðréttingar á skuldum heimilanna. Þar finnst mér að þessir fjármunir eigi að nýtast. Ég velti fyrir mér hvort við ætlum ekkert að ræða það.

Fyrst það á að gera þetta, sem ég er reyndar á móti, þá sakna ég þess að hér sé ekkert talað um dreift eignarhald. Svo geri ég athugasemd við annað. Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins er það Bankasýsla ríkisins sem á að annast sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins. Ég sé ekki að það samræmist hlutverki hennar samkvæmt lögum um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009. Í þeim eru verkefni Bankasýslunnar listuð upp í liðum a–j í 4. gr. Það eina sem gæti hugsanlega nálgast þetta hlutverk er síðasti liðurinn, j-liður, þar sem segir að Bankasýslan eigi að undirbúa og vinna tillögur um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég get ekki séð að það sé að neinu leyti hlutverk Bankasýslunnar að sjá um að selja bankana. Henni er vissulega falið í lögunum að undirbúa og vinna tillögur um sölu þeirra, eins og ég nefndi. Ég var í þeirri nefnd sem fékk frumvarp til laga um Bankasýsluna á sínum tíma til umfjöllunar og þetta var heilmikið diskúterað og skoðað. Það var mat manna þá að Bankasýslan ætti að hafa góða yfirsýn yfir það hvenær væri tímabært að selja eignarhluti en það kom aldrei til tals að hún ætti að sjá um það.

Ég er því á móti þessu frumvarpi og mér finnst margt orka í því tvímælis. Við erum hér ekki bara að tala um verkefni sem mér finnst vera á sviði fjárlaganefndar, þ.e. bara þessi sala og meðferð, hvað fer inn og út, bókhaldið hjá ríkinu o.s.frv., heldur er þetta líka spurning um hvernig fjármálakerfi við höfum. Ég vil beina því til fjárlaganefndar að hún biðji í það minnsta um umsögn frá efnahags- og viðskiptanefnd því að þetta er stærra mál en svo að það sé bara einnar nefndar mál.