141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hafði gert mér vonir um að hæstv. ráðherra mundi koma aftur í andsvar til að svara þeim spurningum sem út af stóðu af því sem ég hafði farið yfir og til að útskýra þessi mál aðeins betur. Mér finnst umræðan engan veginn tæmd þó að um sé að ræða 1. umr. Ýmislegt sem ég tæpti á og hefur almennt komið fram í umræðunni þarf að liggja betur fyrir.

Í fyrsta lagi er staðan sem við erum í núna á Íslandi eftirtektarverð. Fjórum árum eftir hrunið höfum við ekki, að sögn hæstv. fjármálaráðherra, vitneskju um það hverjir eiga bankana. Við erum með tvo stóra banka sem að langmestu leyti eru í eigu kröfuhafa, ætlar maður þó að ég þekki hvernig þetta ferli er, eða verða að lokum í eigu kröfuhafa, skulum við segja, og sama á þá við um þann eignarhluta í Landsbankanum sem þessir kröfuhafar eiga rétt á. Fjórum árum eftir hrun er fjármálaráðherra að segja okkur að við verðum bara að bíða eftir nauðasamningunum því að nauðasamningarnir verði að ganga fram. Það er út af fyrir sig rétt. Þá má segja að hægt verði að stofna hina endanlegu banka með þeim hætti, en það breytir ekki því að grófar upplýsingar um þá kröfuhafa sem eiga stærstu kröfurnar á hendur bankanna hljóta að vera til. Þá er óhjákvæmilegt að að minnsta kosti fjárlaganefnd fái býsna tæmandi lista yfir 50–60 stærstu kröfuhafana til að gera sér einhverja mynd af því hvað um er að ræða.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sammála því að þessar upplýsingar þurfi að liggja fyrir. Það hlýtur að eiga erindi inn í þá umræðu sem hlýtur að fara fram þegar tekin verður ákvörðun um það að selja þessa eignarhluti í bönkunum inn í hvers konar kompaní menn eru að kaupa sig.

Í öðru lagi velti ég því upp áðan í ræðu hvort komið hefði til tals það sem hv. þm. Skúli Helgason ýjaði að en hljóp svo eiginlega frá í seinni ræðu sinni, að það ætti að vera grundvallarmarkmið að selja þessa eignarhluti í dreifðri eignaraðild. Það er að vísu alveg rétt að þegar um er að ræða minni hluta af hlutafénu þá má kannski segja að ástæðan sé ekki jafnknýjandi. Ég vek þó athygli á því sem ég nefndi áðan að hér er þó verið að tala um 13% í Arion banka sem er dálítið. Eigandi að 13% í einum banka hefur þokkalega stöðu í ljósi þess að kröfuhafarnir sem eiga restina eru býsna margir. Það getur skipt miklu máli í þessu sambandi eða að minnsta kosti haft áhrif.

Hæstv. ráðherra sagði að öllum hlutum hefði verið velt upp í þessu sambandi. Gott og vel. Þá hefur það mál verið skoðað. Þá hafa menn velt því fyrir sér hvort skynsamlegt væri að fara fram með frumvarpið í þeim búningi að áskilnaður væri um það að 5% hluturinn í Íslandsbanka, 13% hluturinn í Arion banka og sá hlutur úr Landsbankanum sem á að selja yrðu allir seldir í dreifðri eignaraðild. Síðar kemur frumvarpið fram og þar er ekki kveðið á um þetta og engin sérstök áhersla lögð á það í greinargerðinni. Þá hljóta að koma upp spurningar, úr því að þetta var rætt, öllum hlutum velt upp og niðurstaðan varð síðan sú að leggja fyrst og fremst áherslu á hagkvæmnina í sölunni, þ.e. fá hæsta verð eða markaðsverð fyrir eignarhlutinn. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki skynsamlegt og ætti ekki að leggja á það áherslu í þessum lagatexta, frumvarpstexta, að vera með áskilnað um dreifða eignaraðild í sölunni á þessu hlutafé. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. ráðherra: Úr því að þetta var rætt, öllum steinum velt við, allt skoðað, hver var þá ástæðan og hver eru rökin fyrir því að stefnan er mótuð eins og hér kemur fram? Ég er í sjálfu sér ekkert að gagnrýna það. Ég geymi mér það til síðari tíma en ég vil að okkur sé greint frá því í hvaða kristalkúlu hæstv. ríkisstjórn gægðist þegar hún komst að þessari niðurstöðu. Hver voru rökin fyrir því að falla frá eða leggja ekki áherslu á dreifða eignaraðild á þessum eignarhlut en leggja fyrst og fremst áherslu á að selja á sem hæstu verði? Það er út af fyrir sig markmið. Það var líka markmið á sínum tíma þegar bankarnir voru einkavæddir. Þá var lögð áhersla á að fá sem hæst verð og út af fyrir sig getur sala í dreifðri eignaraðild orðið víkjandi atriði.