141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

161. mál
[16:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Frumvarpið var lagt fram á 140. löggjafarþingi en náði þar ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju á 141. löggjafarþingi.

Eins og ég gat um áðan þegar ég mælti fyrir frumvarpi um breytingu á lögregluembættum hafði ég þau orð uppi þegar ég talaði fyrir frumvarpinu á síðasta þingi að ekki væri ætlunin að þrýsta á að frumvarpið næði fram að ganga á því þingi, en hins vegar væri mjög mikilvægt að þingið fengi málið til umfjöllunar, nefndin gæti lagst yfir málið og gæfist gott ráðrúm til þess. Nú er markmiðið að reyna að fá málið samþykkt á yfirstandandi þingi.

Það þýðir þó ekki að frumvarpið eða þær lagabreytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu nái strax fram að ganga, heldur á það sama við um sýslumannsembættin og lögregluumdæmin að frumvarpið kæmi ekki til framkvæmda fyrr en í ársbyrjun 2015. Hins vegar er að finna í frumvarpinu ákvæði þess efnis að hægt er að flýta tilteknum breytingum innan þessa lagaramma ef aðstæður bjóða upp á slíkt.

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að í fyrsta lagi er frumvarpið í öllum helstu dráttum hið sama og talað var fyrir í vor. Ég hafði ítarlega ræðu um það þá og sé ekki ástæðu til að endurtaka hana nú.

Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á að málið er unnið í ágætri samvinnu við sýslumenn í landinu og samtök þeirra. Það er ekki þar með sagt að allir sýslumenn á Íslandi séu sammála því sem hér er að finna, síður en svo. Hins vegar er það almenn afstaða félags þeirra að vinnubrögðin séu til sóma og almennt er félagið sátt við þær breytingar sem verið er að gera hér.

Ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu sem ég flutti þegar ég talaði fyrir frumvarpinu síðastliðið vor en legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.