141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[15:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu en það er hjákátlegt að sitja úti í sal og hlusta á rök hæstv. utanríkisráðherra. Hann eyðir tíma sínum að megninu til í þau málefni sem ekki voru til umræðu. Það leiðir aftur hugann að því að þessir fyrirspurnartímar eru ef til vill algjörlega tilgangslausir því að ríkisstjórnin virðist ætla að hanga áfram fram að kosningum á einhverjum óræðum atriðum sem eru ekki einu sinni til umræðu í þinginu. Það er dæmalaust, frú forseti, að ráðherra skuli komast upp með þetta.

Úr ræðu hæstv. utanríkisráðherra mátti lesa vonbrigði og svekkelsi. Aðalsvekkelsið stafar af því hve Evrópusambandið bregst illa við umsókn Íslendinga, enda ekki nema von því að ekki er meiri hluti fyrir málinu hér á landi. Ekki nú frekar en þegar umsóknin var lögð inn.

Þarf ég nokkuð að rifja upp hraðferðina sem hæstv. utanríkisráðherra lofaði? Þetta átti að taka 18 mánuði. Þetta átti helst að gerast fyrir hádegi einn daginn, það væri svo einfalt og auðvelt að semja við Evrópusambandið.

Hvað hefur komið á daginn? Nú er árið 2012. Það eru kosningar á næsta ári. Þetta mál á greinilega, að mati Samfylkingarinnar, að vera lifandi fram yfir kosningar. En ég minni landsmenn á að vel má hugsa sé að málið verði kosið burt í næstu kosningum. Fái þeir flokkar sem eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið til þess fylgi og meiri hluta í kosningunum getum við losnað við þetta mál í eitt skipti fyrir öll, þessa ESB-umsóknarmartröð sem ég vil nefna svo. Eins og ég hef margoft bent á liggur allt hér á hliðinni vegna þessa eina máls sem Samfylkingin hefur fram að færa.

Frú forseti. Auðvitað er það vont (Forseti hringir.) fyrir íslenska þjóð að staðan skuli vera þessi. En ég minni á að það styttist í kosningar þannig að við erum bjartsýn.