141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

barnaverndarlög.

65. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 80/2011, um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að fresta gildistöku eins ákvæðis þeirra laga sem við samþykktum vorið 2011 en það varðar tilfærslu á heimilum og stofnunum fyrir börn frá sveitarfélögum til ríkisins sem átti að eiga sér stað 1. janúar næstkomandi. Því verði frestað um eitt ár og fari fram eigi síðar en 1. janúar 2014.

Í raun og veru gerum við sömu athugasemdir og síðast. Við teljum mikilvægt að þörfin verði greind fyrir frekari úrræði á landsbyggðinni og metin sú fjárþörf sem slík uppbygging mundi krefjast. Nefndin lýsti áhyggjum sínum af því að yfirfærslan mætti alls ekki verða þess valdandi að þjónusta við börn á barnaverndarsvæði Reykjavíkur yrði skert um leið og við lýstum miklum áhyggjum af því að svo virðist sem börn á landinu njóti ekki jafnræðis hvað þjónustu sem þessa varðar.

Þetta eru nánast sömu athugasemdir og í nefndaráliti vorið 2011, en við samþykkjum þetta frumvarp óbreytt. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þuríður Backman, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Einar K. Guðfinnsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Guðmundur Steingrímsson. Hv. þm. Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.