141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

þýðing skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku.

123. mál
[17:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu til þingsályktunar um að þýða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku. Þegar ákveðið var að fara út í þessa miklu skýrslu í desember 2008 ræddi ég einmitt um það að þetta gæti jafnvel orðið verkefni sem erlendir háskólar mundu taka þátt í. Ég hugsa að ef vel yrði gáð væri hægt að finna aðila til að fjármagna þýðinguna.

Hrunið á Íslandi er nefnilega mjög athyglisvert og alþjóðasamfélagið gæti dregið af því mikinn lærdóm þó að ég sakni þess dálítið hvað menn hafa gert lítið af því. Ég hef verið í ákveðinni herferð að ræða um hringferla í hlutafélögum sem er alþjóðlegt vandamál og getur spólað upp eigið fé fyrirtækja að vild, þ.e. þeir sem ráða þar geta spólað upp eigið fé og sýnt miklar eignir sem ekki eru til. Mjög margt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er nefnilega mjög lærdómsríkt eins og: Hvað gerist með þjóð þegar allt bankakerfið fer á hausinn? Hvernig tekst að bjarga greiðslumiðlunarkerfinu, sem tókst á Íslandi sem ég tel vera kraftaverk en að hluta til vegna neyðarlaganna? Þetta er mjög áhugaverð tillaga.

Ég skora á flutningsmenn að leita til erlendra háskóla og bjóða þeim verkefnið og segja: Viljið þið þýða þessa skýrslu? Ef þið gerið það megið þið nota hana í kennslu og allt slíkt. Það mundi hugsanlega ekki kosta ríkissjóði neitt og jafnvel færa honum tekjur. Hann gæti jafnvel selt aðgang að skýrslunni eða boðið hana út. Ekki veitir af eins og staða ríkissjóðs er um þessar mundir.