141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:32]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það sem við ræðum hér í dag er afleiðing efnahagshrunsins, þ.e. hvernig við brugðumst við því og hvaða áhrif það hafði á hina ýmsu þætti samfélagsins. Þar á meðal þjóðkirkjuna og framlög til hennar.

Ég get tekið undir það sem hefur komið fram að víða er unnið gott starf í kirkjum landsins og þær gegna mikilvægu hlutverki, ekki síst í dreifðum byggðum þar sem starfsemi af svipuðum toga er kannski ekki til staðar af hálfu sveitarfélaga. En það er líka víða annars staðar unnið gott starf. Það er unnið ágætisstarf í skólum landsins. Það er unnið ágætisstarf í heilbrigðiskerfinu, í velferðarkerfinu og á sjúkrahúsunum. Allt hefur það þurft að líða fyrir efnahagshrunið sem varð hér 2008 með ýmsum erfiðum og vondum afleiðingum.

Þjóðkirkjan naut þess í aðdraganda hrunsins sem aðrir nutu ekki, þ.e. aukinna framlaga umfram verðlagsþróun á sínum tíma, á árunum 1999–2008, nærri tvöfalt umfram verðlagsþróun. Það var aukning á sóknargjöldum á því tímabili. Það var ekki svoleiðis í framhaldsskólunum, svo dæmi sé tekið, þar sem jafnt og þétt var reytt úr fjárhirslum þeirra í aðdraganda hrunsins, sérstaklega þó síðustu tvö, þrjú árin.

Það var ekki heldur svoleiðis í velferðarkerfinu, ekki á sjúkrahúsunum. Það er spurning við hvaða tíma við eigum að miða þegar kallað er eftir leiðréttingu aftur í tímann. Á að miða við þegar allt hrundi í hausinn á okkur 2008? Eða eigum við að fara lengra aftur í tímann og taka mið af því þegar var farið að skera niður í öðrum þáttum samfélagsins? Þetta lýsir ágætlega þeirri forgangsröðun sem bæði stjórnvöld og Alþingi hafa haft við að byggja upp landið eftir hrun. Fjárlaganefnd greip til þess ráðs við fjárlög yfirstandandi árs og afgreiðslu þeirra í fyrra að leggja til breytingar til útgjaldaaukningar til þjóðkirkjunnar upp á hátt í 100 millj. kr. Það er ekki gert ráð fyrir frekari skerðingu í því frumvarpi sem við erum með nú til umfjöllunar fyrir næsta ár þannig að ég tel að þegar allt er til talið (Forseti hringir.) geti þjóðkirkjan vel við unað hvernig hún kom út úr hruninu miðað við margar aðrar mikilvægar stofnanir.