141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir flest það sem þingmaðurinn segir, við höfum auðvitað verið að draga lærdóm ár frá ári og reynt að bæta verklag í ríkisfjármálum, samfellu, yfirsýn og öðru sem snýr að heppilegri fjárlagagerð. Ég held að margt hafi áunnist í því og verklagið hafi batnað. Svo koma upp tilvik eins og rakin voru áðan sem sannarlega eru dæmi sem við þurfum að læra af.

Þegar maður flettir í gegnum þetta mikla skjal hérna er auðvitað er hægt að komast að niðurstöðu um að langflest málin geti trauðla beðið: Heilbrigðisstofnanir, öldrunarmál, menntunarmál o.fl. Svo eru nokkur stór mál sem hefði sjálfsagt mátt ræða betur og fara ígrundað í hvort gætu beðið lengur. Ég vil ítreka aftur það sem ég spurði um áðan, löggæslumálin eru eitt af þeim merku málum sem þurfa að koma auknir fjármunir í vegna löggæslunnar úti á landi sem er komin niður fyrir þolmörk og öryggismörk. Bara til að halda í horfinu þarf að koma til ákveðin fjárhæð sem við höfum verið að ræða um og velta á milli okkar. Ég vil undirstrika (Forseti hringir.) að það er ánægjulegt að ágæt þverpólitísk samstaða sé um að lenda því brýna máli áður en 3. umr. fjárlaga fer fram.