141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo að hv. þingmaður hefur setið í fjárlaganefnd en gerir ekki nú. Ég hef verið að furða mig svolítið á vinnubrögðunum í þinginu varðandi hvernig fjárlögin koma hingað inn. Það virðist alltaf gerast að stóra þætti vantar inn í fjárlögin. Nú minnir mig — og hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér — að það hafi verið svona frá því að við tvö settumst á þing fyrir bráðum fjórum árum.

Það sem ég hef áhyggjur af er að Íbúðalánasjóður glímir við mikinn vanda og ljóst er að ríkissjóður þarf að leggja honum til fjármagn. Menn deila um hversu mikið fjármagn er nauðsynlegt að leggja sjóðnum til nú þegar, en það vekur athygli mína að ekki er horfst í augu við þennan vanda í frumvarpinu sem upphaflega var lagt fram heldur er gert ráð fyrir því að hluti þeirra milljarða sem upp á vantar komi inn á milli næstu umræðna.

Eru það vinnubrögð sem hv. þingmaður kannast við og getur hann útskýrt fyrir mér, sem reyndur þingmaður úr starfi fjárlaganefndar, þá sitjandi í stjórnarmeirihluta en nú í minni hluta, hvers vegna þessi háttur er hafður á? Ég tek dæmið um Íbúðalánasjóð vegna þess að það hefur náttúrlega blasað við í nokkur ár að þar sé vandi á ferðinni sem þurfi að horfast í augu við og taka á. Það á ekki að koma neinum á óvart þegar verið er að sníða fjárlagafrumvarpið að það þurfi að taka á þeim vanda. Hvers vegna er það ekki gert og horfst í augu við það þegar frumvarpið er upphaflega lagt fram? Er það til þess að frumvarpið líti nægjanlega vel út þegar það er lagt fram í fyrstu umferð?