141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að túlka svar hv. þingmanns á þann veg að hv. þingmaður hafi viðurkennt að það hafi ekki verið 90% lánin sem hafi valdið bólunni á fasteignamarkaði heldur sé það mat hv. þingmanns að viðbrögð Íbúðalánasjóðs við lánveitingum bankanna hafi haft eitthvað um það að segja að fasteignabólan varð sú sem hún var.

Ég er hins vegar alls ekki sammála hv. þingmanni um það að Íbúðalánasjóður hefði bara átt að leggja upp laupana þegar bankarnir hófu undirboð sín á markaðnum. Hvar værum við stödd ef Íbúðalánasjóður hefði bara dagað uppi þegar bankarnir komu inn á markaðinn? Þá værum við ekki vel stödd. Við hljótum að geta sammælst um að við þurfum að standa vörð um Íbúðalánasjóð til þess að hann geti gegnt því hlutverki sem hv. þingmaður er þó sammála mér um að á fyrst og fremst að vera hlutverk sjóðsins.

En af því að hv. þingmaður heldur því fram að það sé annaðhvort ósanngjarnt eða óheppilegt að minnsta kosti að ríkistryggður Íbúðalánasjóður sé í samkeppni við einkabankana þá verðum við að hafa í huga að í raun er það sú staðreynd að bankarnir eru ríkistryggðir sem hefur orðið til þess að þeim hefur verið kleift að bjóða þessa lágu vexti, undirbjóða Íbúðalánasjóð, með þeim afleiðingum að sífellt fleiri hafa fært sig yfir í bankana aftur og sett Íbúðalánasjóð í vanda.

Hvað á ég við í þessu? Jú, innstæður í bönkunum eru peningarnir sem bankarnir eru núna að reyna að koma út í íbúðalánum. Þær innstæður eru ríkistryggðar. Þær eru tryggðar af ríkinu, að minnsta kosti samkvæmt yfirlýsingu ráðherra, þannig að það er sú trygging sem er að skapa þetta forskot fyrir bankana. Vandamálið er þá bara það að ríkið er þarna á vissan hátt í samkeppni við sjálft sig.