141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í upphafi ræðu minnar vil ég geta þess að mér fannst lokaorð tveggja síðustu ræðumanna, annars vegar hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hins vegar samflokksmanns míns, hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar, vera komin út á dálítið hála braut og byggi ég það á þeirri almennu skoðun að ekki sé beinlínis heppilegt að stjórnmálamenn taki beinar ákvarðanir um að greiða fyrir einu fyrirtæki en ekki öðru, greiða fyrir þessari atvinnugrein en ekki annarri og þess háttar.

Ég er þeirrar skoðunar að almenn nálgun eigi ekki að vera sú að ríkið skapi störf eða beiti sér beinlínis fyrir verkefnum sem skapa störf heldur skapi fyrst og fremst skilyrði þannig að fyrirtæki og einstaklingar geti búið til verðmæti og verkefni sem skapa störf. Ríkið á ekki að skapa störfin, ríkið á að skapa skilyrðin sem gera það að verkum að störf verða til.

Gott dæmi um þennan greinarmun er meðal annars úr fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Þar er sagt: Fjárfesting hins opinbera hefur verið lítil, við skulum bæta úr því, nú eru betri aðstæður. Hvað er þá gert? Þá er gert ráð fyrir því að ríkið fari í stórar, kostnaðarsamar framkvæmdir og sagt: Heyrið, eruð þið á móti því að ríkið fari í svona framkvæmdir? Eruð þið á móti fjárfestingu? Eruð þið á móti því að hér verði byggt stórhýsi sem verður Hús íslenskra fræða? Þetta skapar fullt af störfum meðan verið er að búa þetta til.

Hæstv. forseti. Þetta er ekki góð fjárfesting að mínu mati. Þetta er ekki verðmætaskapandi fjárfesting í þeim skilningi sem ég legg í þau orð. Ég held að allir séu sammála um það að æskilegt væri og gleðilegt ef við hefðum efni á því á þessari stundu að hefja stóra og kostnaðarsama byggingu undir starfsemi sem tengist íslenskum fræðum. Það væri voðalega gaman, en á þeim tíma þegar við Íslendingar erum í mesta basli með að borga lögreglumönnum laun, hafa nægilega marga hjúkrunarfræðinga í vinnu og svo má lengi telja þá er ég þeirrar skoðunar að við höfum ekki efni á því að fara í lúxusverkefni af þessu tagi. Því miður. Þetta er að mínu mati dæmi um ranga forgangsröðun.

Þetta leiðir hugann að ákveðnum tvískinnungi sem birtist í þessu fjárlagafrumvarpi og í málflutningi talsmanna ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Tvískinnungurinn er annars vegar sá að reynt er að halda þeirri mynd að fólki að ríkisstjórnin hafi náð stórkostlegum árangri bæði í ríkisfjármálum og efnahagsmálum og því séu svo miklu bjartari tímar fram undan. Þetta er sagt í öðru orðinu. Á hinn bóginn þegar verið er að rökstyðja að hvorki sé hægt að draga úr skattheimtu né ráðast í úrbætur á ýmsum sviðum sem telja má til grunnþjónustu samfélagsins — ég nefndi löggæsluna, það má nefna heilbrigðisþjónustuna og fleiri svið — þá er sagt: Nei, það er erfitt að finna pening í þetta, hér varð hrun og við erum að vinna okkur út úr skuldavanda og það er erfitt að fjármagna þetta. Þetta hafa auðvitað fleiri hv. þingmenn nefnt í þessari umræðu. Þegar kemur að verkefnum sem njóta sérstakrar velvildar og eru í svokallaðri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sérstaklega verkefni sem hafa á sér grænan blæ eða menningarlegan blæ, þá eru til nógir peningar.

Fjárlaganefnd er enn þá, tveimur mánuðum og bráðum þremur mánuðum eftir að fjárlagafrumvarpið kom fyrst fram, að vandræðast með það hvað eigi að gera varðandi löggæslumálin. Það er ekki enn þá búið að finna peninga til að styrkja löggæslu í landinu. Það er ekki búið að því og þó er vandinn á því sviði ekkert nýr. Hann hefur legið fyrir allt þetta ár, lá fyrir í fyrra og árið þar áður. Það eru engin ný eða óvænt tíðindi að það vanti peninga til að halda uppi nauðsynlegri grunnþjónustu á sviði löggæslumála í landinu. Fjárlaganefnd hefur verið að vandræðast með þetta mál og fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin hafa átt í vandræðum með að finna pening. En þegar verið er að tala um gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs upp á 300 millj. kr., sömu upphæð og vantar í löggæslu, er einfalt að taka þá ákvörðun. Það var ekkert flókið að setja það í fjárfestingaráætlunina, það var ekkert flókið að setja það inn í breytingartillögur meiri hlutans við fjárlagafrumvarpið. Eða 280 millj. kr. vegna ýmissa verkefna sem tengjast græna hagkerfinu sem ég spurði hér fyrir nokkrum dögum hvað fælist í. Ég bað um að einhver útskýrði það fyrir mér hvaða verkefni væri þarna um að ræða, 280 millj. kr. til forsætisráðuneytisins til að úthluta til einhverra gæluverkefna sem hafa á sér einhverja græna slikju. Í hvað á að nota þessa peninga? Getur einhver upplýst um það? Fór fjárlaganefnd yfir það í hvað ætti að nota þessa peninga? Eyddi fjárlaganefnd miklum tíma í vangaveltur um hvað til dæmis væri átt við með grænum skrefum og vistvænum innkaupum sem 150 millj. kr. eru settar í þar til viðbótar? Voru einhverjar vangaveltur um það í fjárlaganefnd? Var fjárlaganefnd í einhverjum vandræðum með að taka afstöðu til þess hvað ætti að gera við þessa peninga? Svo virðist ekki vera. Það hefur ekki komið fram í þessum umræðum og það koma ekki fram í nefndarálitum sem hér liggja fyrir neinar sérstakar vangaveltur um það í hvað þessir peningar eigi að fara.

Á sama tíma eru menn í alveg óskaplegum vandræðum með ákvarðanatöku í sambandi við löggæslumál. Það er alveg óskaplegt vandamál. Það er svo mikið vandamál að núna 3. desember er ekki búið að taka ákvörðun um það hvaða pening á að setja í viðbót í löggæslumál þó að það vandamál hafi legið fyrir. Það kemur einfaldlega þannig út að það verkefni njóti ekki sömu velvildar hjá meiri hlutanum í þinginu og meiri hluta fjárlaganefndar og hjá ríkisstjórninni og þau verkefni sem ég hef hér nefnt. Fyrst til eru peningar til að setja í þau mál sem ríkisstjórnin hefur gert að sínum sérstöku gælumálum þá eru engin rök að halda því fram að engir peningar séu til að setja í löggæslumál, bara svo að dæmi sé tekið.

Dæmi um þetta eru um allt. Það er vandræðagangur í sambandi við að fjármagna það sem við getum kallað grundvallarþjónustu ríkisvaldsins, það er vandamál að fjármagna verkefni, störf og kostnað sem hlýtur að leggjast á ríkisvaldið vegna nauðsynlegrar grunnþjónustu, en það er enginn vandræðagangur þegar kemur að verkefnum sem hafa skírskotun til einhverra hópa sem núverandi ríkisstjórnarflokkar eru að reyna að ná til í sambandi við kosningar með tali um græna hagkerfið, með tali um aukið fé til menningarmála eða einhverra slíkra mála sem vissulega eru góð og æskileg og falleg en tengjast ekki með neinum hætti grunnþjónustu ríkisvaldsins. Þarna er alveg óskaplegt ósamræmi. Menn eru óskaplega sparsamir þegar kemur að grunnþjónustu ríkisvaldsins en óskaplega örlátir á peninga þegar kemur að gæluverkefnum. Þetta er óskaplega skrýtið.

Ég kalla nú eftir því áður en þessi umræða rennur sitt skeið á enda að hv. þingmenn og talsmenn ríkisstjórnarflokkanna í fjárlaganefnd svari fyrir þetta. Af hverju var miklu auðveldara að taka ákvörðun um gestastofu í Vatnajökulsþjóðgarði upp á 300 millj. kr. en fjárframlög til lögreglunnar um 300 millj. kr.? Bara svo að dæmi sé tekið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Af hverju er þessi forgangsröðun fyrir hendi? Af hverju er ekki hægt að halda uppi lágmarksheilbrigðisþjónustu í byggðum landsins á sama tíma og á að setja 400 millj. kr. í einhver óskilgreind verkefni tengd sóknaráætlun landshluta? Haldið þið að fólkið úti á landi vilji ekki frekar hafa heilsugæslustöðvarnar í lagi, hafa heilbrigðisþjónustuna í lagi, hafa löggæsluna í lagi en að eyða hundruðum milljóna í sóknaráætlun sem enginn veit fyrir hvað stendur? Fjárlaganefnd hefur ekkert farið ofan í það og gerir enga grein fyrir í hvað á að verja þessum peningum. Þessar 400 millj. kr. eru settar á forsætisráðuneytið til að verja í sóknaráætlun sem var byggð á svo veikum grunni að ríkisstjórnin treysti sér ekki einu sinni til þess að fara með hana í gegnum þingið á sínum tíma heldur tók hana úr þinginu og gerði hana að einhvers konar ríkisstjórnarplaggi vegna þess að hún treysti sér ekki til að svara fyrir það í þinginu hvað fælist í henni.

Þessi sóknaráætlun er sama markinu brennd og svokölluð fjárfestingaráætlun. Hún er fyrst og fremst orðskrúð, tal og þokukenndar hugmyndir en ekki neitt sem hönd á festir. Það eru ekki til peningar í það sem hönd á festir, það eru ekki til peningar í þjónustu við fólkið í landinu en ef menn telja að eitthvað geti haft á sér jákvæðan blæ í pólitískum spuna þá er nægur peningur til. Þetta er eins og bent hefur verið á í umræðunni, það er ekki til peningur til þess að halda uppi lágmarksþjónustu á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið en það er til peningur til þess að ráða fleira fólk inn í ráðuneytin — það er til peningur til þess. Það er hægt að setja meiri peninga í umhverfisráðuneytið af því að það hafa bæst við verkefni. Þar er til peningur. Það er hægt að bæta við peningum í fjármálaráðuneytið og forsætisráðuneytið og fleiri ráðuneyti.

Mér sýndist í fljótu bragði að gert væri ráð fyrir auknum fjárframlögum í frumvarpinu til allra ráðuneyta nema hugsanlega velferðarráðuneytisins, eins og frumvarpið var þegar það var lagt fram hér í haust, og svo er enn bætt í í breytingartillögum meiri hlutans. Ég held að í langflestum tilvikum sé verið að auka fjárframlög til aðalskrifstofa ráðuneytanna. Í öllum tilvikum er auðvitað komið og sagt: Ja, það er verið að fjölga hér verkefnum, þess vegna þurfum við meiri pening.

Er spurt hvort um sé að ræða nauðsynleg verkefni? Það er ég ekki viss um. Ég er ekki viss um að fólkinu sem fær ekki heilbrigðisþjónustu aðra hverja helgi á þéttbýlisstöðum á Vesturlandi finnist mikilvægara að fjölga lögfræðingum í einhverju ráðuneyti frekar en að fá nægilega margt heilbrigðisstarfsfólk til að halda uppi lágmarksþjónustu þar. Það er ekki til peningur til þess að borga fólki helgarvinnukaup þar, en það er hægt að bæta við stöðugildum lögfræðinga eða annarra sérfræðinga í ráðuneytum í Reykjavík. Það er auðvitað undarleg forgangsröðun.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að staldra lengur við einstök atriði af þessu tagi. Það sem ég nefndi eru ekki stóru upphæðirnar en sýnir svolítið brenglaða forgangsröðun að mínu mati, brenglaða forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, brenglaða forgangsröðun meiri hluta í fjárlaganefnd og brenglaða forgangsröðun meiri hluta þingsins, ef — og ég segi aftur: ef meiri hluti er fyrir þessum tillögum í þinginu en það á auðvitað eftir að koma í ljós.

Ég gæti staldrað við fleiri atriði hér. Fyrr í kvöld hefur verið minnst á skyndilega bólgu sem hefur hlaupið í svokallaða IPA-styrki milli 1. og 2. umr. í þessu máli. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason nefndi þetta hér í kvöld og reyndar áttum við hv. þm. Jón Bjarnason samtal um þetta á fimmtudagskvöldið. Við eigum það allir sameiginlegt að enginn okkar áttar sig almennilega á því af hverju fjármagn á forsendum IPA-styrkja eykst svona mikið milli 1. og 2. umr. Ég sé ekki betur en gert hafi verið ráð fyrir um 300 millj. kr. í IPA-styrki í upprunalegu fjárlagafrumvarpi, kannski 340 millj. kr., en eftir breytingartillögur meiri hlutans er sú tala komin yfir 800 millj. kr. Hvað breyttist? Hefur einhver úr hv. fjárlaganefnd getað skýrt frá því hvað breyttist? Af hverju voru þetta bara 340 millj. kr., eða hvað það var, í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram í september og af hverju er þessi tala orðin 800 millj. kr.? Hvað hefur breyst í millitíðinni? Getur einhver upplýst um það? Ég veit það ekki. Það geta verið á þessu einhverjar skýringar en þær hafa ekki komið fram sem virðist stafa af feimni margra úr ríkisstjórnarliðinu við að ræða þessa IPA-styrki. Ég tek það fram að ég útiloka ekkert að það geti verið einhverjar góðar og eðlilegar skýringar á því að þessi upphæð hefur aukist svona mikið, um 0,5 milljarða kr. milli 1. og 2. umr. Það getur vel verið að það séu eðlilegar skýringar á því en þær hafa ekki komið fram við þessa umræðu og þær koma ekki fram í gögnum málsins. Það kemur ekki fram af hverju ekki var hægt að setja þessa tölu fram í fjárlagafrumvarpinu eins og það leit út upphaflega. Það kemur ekki fram hvað breyttist milli 1. og 2. umr. sem gerir að verkum að þessi upphæð meira en tvöfaldast og töluvert meira en það.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að staldra lengi við þetta. Það sem er stóra áhyggjuefnið í fjárlagafrumvarpinu eins og það stendur núna er að enn á eftir að taka tillit til mjög margra stórra þátta sem geta skipt miklu máli.

Það hefur ítrekað komið fram hér í umræðunni að enn eru uppi spurningar vegna fjármögnunar Íbúðalánasjóðs sem getur haft miklu meiri áhrif á fjárhag ríkisins en einstaka tillögur sem við erum að takast á um í þessu fjárlagafrumvarpi. Við vitum ekki hvernig því máli verður lent gagnvart fjárlagafrumvarpinu eða gagnvart öðrum færslum en það er auðvitað ljóst að þar getur verið um milljarða, jafnvel tugi milljarða að ræða.

Á sama hátt er alls óvíst með hvaða hætti verður tekist á við hugmyndir að byggingu nýs Landspítala í fjárlagafrumvarpinu. Kannski verður ekkert gert í því, við vitum það ekki, en fréttir sem bárust fyrir helgi um breytta nálgun eða aðferð við fjármögnun verkefnisins og umræður þar að lútandi innan ríkisstjórnar og hjá öðrum hlutaðeigandi aðilum gefa til kynna að þar verði hlutur ríkisins meiri en áður hefur verið gert ráð fyrir. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur að lífeyrissjóðirnir og slíkir aðilar hafa horfið frá því að taka þátt í fjármögnun þessa verkefnis á grundvelli áhættu. Það vekur spurningar um áhrif verkefnisins, byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss, á fjárhag ríkisins á komandi árum.

Ég verð að játa að það vekur mér nokkurn ugg að verið sé að fara í þessa framkvæmd við núverandi aðstæður. Hvernig ætlum við að fjármagna slíka risaframkvæmd á þeim tímum sem við lifum nú? Hvernig ætlum við að gera það? Jú, segja menn, við tökum náttúrlega bara lán og svo í fyllingu tímans mun verða svo mikil hagkvæmni af því að sameina alla starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss í nýju húsi að við stórgræðum á öllu þegar upp er staðið. Ég verð að játa það að þegar ég heyri hugmyndir um risaframkvæmdir af þessu tagi, ekki síst í ljósi efnahagsástandsins, þá vekur það mér ugg og ég bið menn í fjárlaganefnd og annars staðar að stíga gætilega til jarðar í því efni.

Það leiðir auðvitað hugann að öðru verkefni þó að vissulega megi segja að það sé mun meira gæluverkefni en bygging nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Við erum ekki búin að sjá fyrir endann á því hvað Harpa á eftir að kosta okkur. Við vitum ekki hvað það verður mikið. Það sem við höfum séð í því sambandi er að kostnaðaráætlanir og kostnaðarútreikningar stóðust alls ekki. Harpa er fínt og flott hús fyrir ríka þjóð en hún á eftir að verða okkur nokkuð kostnaðarsöm og ætti að vera okkur ákveðin áminning um það hversu mikið opinberar byggingar hafa að jafnaði farið fram úr kostnaðaráætlunum á undanförnum árum.

Svo á eftir að taka tillit til fjölda annarra atriða sem boðað er að komi inn í fjárlagafrumvarpið milli 2. og 3. umr. Allar þær áætlanir og öll þau atriði sem nefnd eru í því sambandi eiga það sammerkt að vera til þess fallin að gera stöðu ríkisfjármála alvarlegri og erfiðari viðureignar en lítur út fyrir eins og frumvarpið birtist okkur nú við 2. umr. málsins.