141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt sem kom hér fram — hv. þingmaður tekur undir það, við erum sammála um það — að skynsamleg breyting var gerð þegar við fórum í 1. umr. Það var enda samdóma álit fjárlaganefndar að stýra þessu þannig að fagráðherrarnir sætu hér og svöruðu fyrir sína málaflokka. Frumvarpið kemur fyrr inn í þingið. Það er auðvitað til góða.

En það sem gerist í framhaldinu af því er að ríkisstjórnin kemur frekar seint með tillögur sínar miðað við upphaflegt markmið. Ég minni á að ekki er enn búið að mæla fyrir svokölluðum bandormi eða kyrkislöngu, eins og ég kalla það, í sambandi við skattalagafrumvörpin og það þarf að skoða.

Ég velti því fyrir mér hvort við eigum ekki að taka þetta allt aðeins nær okkur. Við sjáum til dæmis málefni Íbúðalánasjóðs. Nú hafa þau legið fyrir, og hefur komið fram í bréfum frá Íbúðalánasjóði, viðræður eru í raun hafnar fyrir tæpu ári við velferðarráðuneytið til úrlausnar á málefnum sjóðsins. Nefndin er með bréf frá 26. júlí þar sem er eiginlega ákall um að fara í þessa vegferð. En ráðuneytið og stjórnsýslan hefur að mínu mati ekki staðið sig í þessu hlutverki. Upplýsingar hefðu átt að liggja fyrir fyrr og það hefði átt að koma inn í 2. umr. frumvarpsins. Ég tel að við þurfum að stíga þessi skref áfram og taka þetta aðeins nær okkur.

Löggæslumálin hafa verið nefnd milli 2. og 3. umr. Þetta er auðvitað mál sem við höfum vitað af mjög lengi og það er það sem ég er að benda á, að þingið þarf að stíga meira fram og taka þessi málefni nær sér í stað þess að láta framkvæmdarvaldið hafa forustuna. Ég vil þó nefna eitt mál sem er til bóta, en það snýr að málefnum Eirar.