141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir bæði spurningar og hvatningu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur til hæstv. innanríkisráðherra um að hann taki þátt í þessari umræðu og láti meðal annars í ljós álit sitt á þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram um löggæslumálin. Ég held að það væri mikilvægt fyrir umræðuna að hann greindi frá afstöðu sinni og tillögugerð í þessum efnum því að ég get ekki ímyndað mér annað en að hæstv. innanríkisráðherra hafi lagt gott til málanna að þessu leyti á vettvangi ríkisstjórnar þó að hann hafi ekki, a.m.k. ekki enn sem komið er, náð tillögum sínum í gegn. Í umræðum sem átt hafa sér stað um löggæslumálin á þinginu fyrr í haust og raunar fyrir þann tíma líka hefur hæstv. ráðherra innanríkismála sýnt skilning á þeirri fjárþörf lögreglu sem margir þingmenn hafa vakið athygli á við þessa umræðu. Hann hefur sýnt því skilning en einhvern veginn hafa tillögur í þá veru hvorki ratað í fjárlagafrumvarpið eins og það var lagt fram í haust né inn í breytingartillögur meiri hlutans enn sem komið er.

Eins og ég sagði hér í gærkvöldi hefur að vissu leyti komið fram, þó að ekki sé hægt að kalla það skýr fyrirheit, vilji hjá ákveðnum fulltrúum meiri hlutans í fjárlaganefnd til að bæta að nokkru úr þeim fjárskorti hjá lögreglunni sem við höfum vakið athygli á. Bæði hv. formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, og fjárlaganefndarmaðurinn og formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, hafa lýst vilja til þess að koma til móts við fjárþörf, a.m.k. hinna fámennari umdæma úti á landi sem í mörgum tilvikum búa við tiltölulega fámennt lið sem á að sinna stóru svæði, jafnvel stóru svæði þar sem ferðamannastraumur er mikill eins og fyrir austan fjall og síðan á Norðurlandi líka. Vonandi skila þessar tillögur sér inn í umræðuna milli 2. og 3. umr. og ná fram að ganga.

Eins og ég hef áður sagt við þessa umræðu hefur verið óskiljanlegt af hverju þessi brýnu mál hafa ekki fengið úrlausn fyrr þegar, eins og ég hef margoft bent á, ýmis önnur verkefni hafa greinilega hlotið náð fyrir augum meiri hlutans í fjárlaganefnd eða hæstv. ríkisstjórnar og talið hefur verið mögulegt að verja tiltölulega háum fjárhæðum, hundruðum milljóna, til tiltölulega óskilgreindra verkefna og það látið nægja að gefa þeim einhver græn heiti, grænt hagkerfi, græn skref, grænkun fyrirtækja og eitthvað þess háttar án þess að það sé útskýrt frekar. Ef verkefnin eru kölluð einhverjum svona nöfnum hafa þau hlotið náð og fjárveitingar upp á hundruð milljóna króna en brýn þörf í löggæslumálum og reyndar á sumum sviðum heilbrigðismála líka hafa ekki fengist afgreidd. Það hefur einhvern veginn reynst miklu erfiðara að afgreiða slík mál.

Ég læt þetta nægja um þetta en af því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi þessar spurningar, sérstaklega um löggæslumálin, vildi ég bæta öðru við þessa umræðu og ég vonast til þess að því verði með einhverjum hætti svarað, annaðhvort af hálfu hæstv. ráðherra innanríkismála eða hv. nefndarmanna í meiri hlutanum í fjárlaganefnd, hvort ætlunin sé að koma eitthvað til móts við þá fjárþörf og þau vandamál sem hefur verið vakin athygli á varðandi framlög til þjóðkirkjunnar og sóknargjöld. Það eru ekki nema tvær eða þrjár vikur síðan sérstök umræða var haldin hér þar sem svo til allir þingmenn sem tóku þátt í henni frá svo til öllum flokkum lýstu yfir miklum vilja til þess að bæta kirkjunni þær skerðingar sem hún hefur orðið fyrir, skerðingar sem hafa að því er virðist byggst á þeim misskilningi að um fjárframlög til kirkjunnar ætti að fara með sama hætti og fjárframlög til einstakra ríkisstofnana. Það er algjörlega horft fram hjá sérstökum lagaákvæðum og samningum sem gilda um fjármögnun kirkjunnar.

Þriðja atriðið sem ég ætlaði að nefna, sem enn stendur út af, varðar hina svokölluðu IPA-styrki. Í mörgum ræðum hefur verið vakin athygli á því að það væri nokkuð óljóst hvaða peningar kæmu inn eftir þeim leiðum og hvers vegna ekki hefði verið gert ráð fyrir þeim í frumvarpinu upprunalega nema að litlu leyti. Eins hafa fréttir verið misvísandi um það hversu háar þær upphæðir væru þegar á heildina væri litið. Í breytingartillögum meiri hlutans höfum við tölur upp á 800 og eitthvað milljónir króna en á sama tíma heyrast fréttir í Ríkisútvarpinu hafðar eftir áreiðanlegum heimildum sem gefa til kynna mun hærri upphæðir. Í ljósi þess hvers konar feluleikur hefur átt sér stað í sambandi við þessa IPA-styrki eiginlega frá upphafi aðildarferlisins hlýtur maður að óska eftir nánari skýringum. Án þess að ég haldi því fram að beinlínis sé verið að fela eitthvað er þó reynslan sú að það hefur þurft að kalla fram sérstaklega og kreista út allar þær upplýsingar sem fram hafa komið opinberlega um þessi mál. Ég óttast að það eigi líka við að þessu sinni.

Hæstv. forseti. Ég og fleiri hv. þingmenn höfum í nokkrum ræðum vakið athygli á því að stórir liðir eru ekki komnir inn í fjárlagafrumvarpið. Frumvarpið eins og það lítur út núna er því trúlega, en því miður, miklu betur útlítandi en það sem við komum til með að fjalla um við 3. umr. Ef að líkum lætur munu ýmsir liðir sem fela í sér stóraukinn kostnað, stóraukna áhættu og fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð bætast inn milli 2. og 3. umr. Það kemur fram í skjölum málsins að mörgum erfiðum ákvörðunum að því leyti hefur verið frestað milli umræðna, fyrst frestað að taka á þeim þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og síðan frestað í nefndarstarfinu milli 1. og 2. umr. Því er ekki von á þeim tillögum fyrr en kemur að 3. umr. Þar erum við að tala um stóra liði eins og Íbúðalánasjóð, Landspítala – háskólasjúkrahús, Hörpu og fleiri einstök verkefni þar sem augljóst er að ganga þarf frá hlutum með öðrum hætti en þegar er komið fram. Allir þessir liðir virðast vera þess eðlis að þeir leiði annaðhvort til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð, aukinnar skuldsetningar eða að minnsta kosti aukinna ábyrgða og áhættu fyrir ríkissjóð þegar til lengri tíma er litið. Ef tekið verður eðlilegt tillit til þessara liða þegar þeir eru komnir inn er hætt við að sú glansmynd sem hæstv. ríkisstjórn hefur reynt að draga upp af þessu fjárlagafrumvarpi reynist leiktjöldin ein.

Eins og margoft hefur verið vakin athygli á í umræðunni hefur reynslan sýnt að í mörgum tilvikum koma hinar réttu upplýsingar um raunverulega stöðu ríkissjóðs ekki fram fyrr en jafnvel tveimur árum of seint, þegar gengið er frá lokafjárlögum og ríkisreikningi, vegna þess að þar eru færðir ýmsir kostnaðarliðir sem hefði með réttu átt að geta um í fjárlögum eða fjáraukalögum en hefur ekki verið gert þrátt fyrir athugasemdir þingmanna stjórnarandstöðu, Ríkisendurskoðunar og fleiri. Auðvitað óttast maður að hið sama verði uppi núna, ekki síst í ljósi þess að margt í framsetningu þessa máls af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans í fjárlaganefnd hefur á sér kosningablæ og þess vegna er hætt við að leitað verði leiða til þess að fegra myndina með því að fresta því eins og kostur er að færa réttilega til bókar ýmsan kostnað, (Forseti hringir.) ýmsar ábyrgðir og fjárhagslega áhættu sem ríkissjóður ber.