141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þessi fjárlög eru staðfesting þess að nú, heilu kjörtímabili eftir efnahagshrunið, er enn verið að safna skuldum. Ríkið er enn að auka skuldir sínar. Að vísu er því haldið fram að fjárlögin gefi til kynna að skuldirnar muni ekki aukast mjög mikið á næsta ári, en þegar liggur fyrir að menn hafa kosið að líta fram hjá mjög stórum liðum sem munu auka útgjöldin til mikilla muna og jafnvel í samræmi við það sem við höfum séð á undanförnum árum.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2011 átti hallinn á rekstri ríkissjóðs að nema 36,4 milljörðum og þá státuðu ófáir þingmenn stjórnarliðsins sig af þeim árangri fyrir fram. Raunin varð 89,4 milljarða kr. halli, það skeikaði 173%. Á fjárlögum ársins 2010 átti hallinn að vera 87,4 milljarðar sem stjórnarliðum þótti þá gott. Hann varð 123,3 milljarðar Við höfum ekki hugmynd um hver halli fjárlaga ársins 2013 verður á endanum (Forseti hringir.) en hann verður umtalsverður, svo mikið er víst.