141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mig langar að tala um liði 35 og 36. Hér birtist meðal annars fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem margoft hefur verið rædd í dag. Ég vek athygli á því að hér er verið að stórauka fjárframlög í atvinnugreinar sem geta vaxið gríðarlega og skapað mjög fjölbreytt störf úti um allt land t.d. tónlistariðnaðurinn, allur hönnunariðnaðurinn, handverkssjóður og myndlistasjóður. Ég sé að sumir glotta hér inni og það finnst mér vísbending um að við eigum dálítið langt í land með að sannfæra fólk, ég er ekki viss um að við eigum langt í land með almenning heldur fólk hér í salnum, um að það þurfi að breyta atvinnustefnunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það þarf að auka fjölbreytni á Íslandi og við eigum að styðja atvinnugreinar sem geta vaxið. Þessar atvinnugreinar hafa heiminn allan að markaðssvæði (Forseti hringir.) og geta vaxið nánast ótakmarkað. Þetta eigum við að styðja og með tiltölulega litum fjármunum getum við stutt svona atvinnugreinar. Þetta er góð stefna.