141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég undirstrika að það skiptir miklu máli að vel sé búið að listum í landinu og ég tel ekki síst kvikmyndagerðina skipta miklu máli um eflingu atvinnusköpunar til lengri og skemmri tíma. Það hefur tekið langan tíma að byggja upp öfluga kvikmyndagerð sem skilar samfélaginu afar miklu.

Aðeins um þessa þætti hér, það sem ég vil draga fram er að við reyndum á sínum tíma í fjárlaganefnd að gera ákveðna uppstokkun á fjárlagaliðunum. Það var ákveðin viðleitni, ekki voru allir þingmenn í öllum flokkum sammála því, en við reyndum það þó, þingmenn ýmissa flokka. Ríkisstjórn Íslands hefur hins vegar rofið það samkomulag með sinni ákveðnu geðþóttaákvörðun. Þrátt fyrir að þessir liðir séu mikilvægir og merkilegir er að mínu mati búið að rjúfa það samkomulag sem gert var af reyndar veikum mætti á sínum tíma með því að breyta vinnubrögðum í fjárlaganefnd. Það hefur ríkisstjórn Íslands brotið. Við vildum sjá ný vinnubrögð (Forseti hringir.) innan fjárlaganefndar. Nú er aftur horfið til fyrri vegar.