141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[12:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fyrir þessa yfirferð. Það er eitt sem ég verð að leiðrétta hann með. Hann talar um að Byggðastofnun hafi árið 2003 lagt til að taka upp flutningsjöfnun (Atvvrh.: 2002.) — eða 2002. Þetta er ekki alls kostar rétt vegna þess að þessi tillaga kom úr mikilli skýrslu sem var gerð af Hagfræðistofnun fyrir þáverandi hæstv. byggðamálaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, og þeirri rannsókn stjórnaði sá sem hér stendur. Ein af megintillögunum þar var að taka upp flutningsjöfnun eða reyna að jafna flutningskostnað í landinu með kerfi sem þar var kynnt. Það var því ekki Byggðastofnun sem lagði þetta til heldur var það gert í rannsókn sem ég stjórnaði, ásamt fleiri tillögum.

Það er eitt með þetta byggðakort. Mér finnst hæstv. ráðherra líta svolítið fram hjá þeirri staðreynd sem ég rakti og er raunverulegt dæmi um fyrirtæki í kjötvinnslu sem starfar á Akureyri og borgar 120 millj. kr. í flutningskostnað sem gerir samkeppnisstöðu þess fyrirtækis miðað við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu 120 millj. kr. verri. Þetta byggðakort, eða þessi 20%-svæði, eru góð í sjálfu sér en þurfa að ná til miklu stærri svæða en þau gera núna.