141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

samskipti ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Skila lyklunum, segir hv. þingmaður. Hvert eigum við að skila þeim? Eigum við að skila þeim til Sjálfstæðisflokksins? (Gripið fram í: Til þjóðarinnar.) Til Framsóknarflokksins? (TÞH: Þið eigið að skila þeim til þjóðarinnar.) Er það það sem hv. þingmaður er að ýja að, að betur væri komið fyrir launafólki ef sjálfstæðismenn og framsóknarmenn stjórnuðu hér? (Gripið fram í: Nei.)

Ég skal segja eitt við hv. þingmann: Ég er sannfærð um það að ef svo illa fer í kosningunum í vor að sjálfstæðismenn taki við völdum (Gripið fram í.) mun forusta ASÍ þakka fyrir þann tíma sem hún hefur haft með félagshyggjustjórn síðustu fjögur árin. (Gripið fram í: Nei, nei, nei.) [Kliður í þingsal.] Það er alveg ljóst, hv. þingmaður. Og við getum farið yfir þau mörgu atriði (Gripið fram í.) sem við höfum komið til framkvæmda á þessum fjórum árum til hagsbóta fyrir launafólk í landinu. (Gripið fram í.) Við fórum af þeirri braut sem hv. þingmaður og flokkur hans voru á (Forseti hringir.) þegar þeir hækkuðu skattana á láglaunafólk en lækkuðu skatta á hálaunafólk. Svona er hægt að telja upp hvert atriðið á fætur öðru þar sem gengið var gegn (Forseti hringir.) launafólki í þessu landi þegar íhaldsmenn stjórnuðu. Vonandi koma þeir tímar ekki aftur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)