141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágætt innlegg hér og einlægt. Við þekkjum skoðanir hv. þingmanns og ég virði þær. Ég hef hins vegar velt því upp í nokkrum ræðum hvort niðurstaða þessarar þingsályktunartillögu hafi færst of nálægt skoðunum hv. þingmanns og fjær hinni breiðari samstöðu. Ég veit það ekki.

Hv. þingmaður las hér upp gagnrýni á aðferðafræðina og ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún deili þeirri skoðun að aðferðafræðin sem við nýtum við þessa flokkun, kannski í öllum fjórum faghópunum eða kannski bara í heild sinni, sé ekki nægilega góð. Ég hef einmitt talað fyrir því að við getum líka treyst komandi kynslóðum til að taka skynsamlegar ákvarðanir þannig að við þurfum ekki núna að taka allar þær ákvarðanir (Forseti hringir.) um að vernda eða nýta og að biðflokkurinn verði stærri.

Ég ætla að fá að koma aðeins inn á biðflokksumræðuna í seinna andsvari.