141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég vil fara aðeins lengra ofan í þessa umræðu því að ég held að þetta sé mikið áhyggjuefni. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns þegar kemur að fjárlagagerðinni, að við séum ekki að byggja upp nægilega verðmætasköpun til að standa undir nauðsynlegum útgjaldaliðum í fjárlögunum og hvað þá þeirri aukningu sem verið er að setja í ákveðna málaflokka sem ég held að flokkist ekki undir grunnstoðir samfélagsins.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar því að borið hefur á því að ákveðnir stjórnarliðar hafa talað um að þetta sé hluti af breyttri forgangsröðun, þ.e. að sleppa þessum verkefnum upp á 270 milljarða, 5.000 störf. Síðan hafa stjórnarliðar haldið því fram að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar eigi að koma til móts við þetta.

Hafa hv. þingmaður og fjárlaganefnd, sem fer með fjárveitingavald ríkissjóðs, kynnt sér þessa fjárfestingaráætlun? Hver er skoðun þingmannsins á því? Telur hv. þingmaður að fjárfestingaráætlunin komi til móts við þessa 270 milljarða? Jafnvel þó að þetta sé, eins og hv. þingmaður kom inn á, væntur ábati hlýtur þetta engu að síður að vera nokkuð nærri lagi, 270 milljarðar, 4–6% minni hagvöxtur og 5.000 störf. Telur hv. þingmaður eftir vinnu sína í fjárlaganefnd að það eigi við rök að styðjast að fjárfestingaráætlunin skili þessum ábata? Ef ekki, hvað áætlar fjárlaganefnd að ábatinn verði mikill? Ég held að það sé mikilvægt hvað varðar nálgun á þeirri umræðu sem við erum í hér.