141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta er nokkuð snúin spurning að því leytinu til að lesa má lögin þannig að ráðherrarnir hafi haft heimild til að gera þetta. Ég held hins vegar að það hafi verið rangt að beita henni og þar er ég sammála hv. þingmanni. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi vil ég segja að með því að beita þessu ákvæði var rofin sú sátt sem var reynt að ná, það var ljóst. Í öðru lagi er þetta fyrsta rammaáætlun sem reynt er að gera og því hefði verið mikilvægt að láta hana sigla áfram í þeim farvegi sem við töldum eðlilegan án þess að grípa inn í. Í þriðja lagi voru teknar miklar og mjög umdeilanlegar ákvarðanir af ráðherrunum. Ég segi að þær séu umdeilanlegar vegna þess að þarna voru færðir kostir sem höfðu skorað mjög hátt í vinnu verkefnisstjórnarinnar, þeir höfðu mælst mjög vel fyrir og voru taldir mjög góðir nýtingarkostir. Ég held að allt þetta geri það að verkum að það voru mistök að fara þessa leið, ég tel að það hafi verið rangt að gera þetta.

Ég held því, án þess að kveða upp úr með það fyrir fram, að þegar við endurskoðum lögin um rammaáætlun sé mikilvægt að aðkoma framkvæmdarvaldsins að málinu verði skoðuð vandlega áður en það kemur til Alþingis. Ég túlkaði það alltaf þannig að stóra málið væri að reyna að ná sáttinni á þingi. Ég tek því að nokkru leyti undir með hv. þingmanni að þetta hafi verið mistök og það hafi verið rangt að fara þá leið sem framkvæmdarvaldið fór.