141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg með ólíkindum hvernig hæstv. ráðherrar komast upp með það trekk í trekk í tengslum við rammaáætlun, í tengslum við umræðuna um ríkisfjármál og skuldastöðu ríkisins að fegra stöðuna. Einnig er hægt að velta fyrir sér aðhaldi fjölmiðla í því samhengi. Auðvitað hefur orðið einhver þróun frá árinu 2009, þó það nú væri að einhver bati hafi orðið. En ég verð að segja eins og er að ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri aukning á hreinum skuldum ríkissjóðs. Ég hélt það ætti að vera niður á við miðað við allan fagurgala ríkisstjórnarinnar. Ég hélt kannski að súlurnar væru með öfugum formerkjum í grein Ragnars Árnasonar, þeirri skyldulesningu.

Hluti af því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom á áætlun í samstarfi við ríkisstjórnina á sínum tíma var m.a. það að menn töldu (Forseti hringir.) að það mundi stuðla að auknum hagvexti að við yrðum komin fyrr út úr kreppunni.

Ég ítreka spurningu mína: Er ekki hv. þingmaður hrædd um það hægi að á hagvexti (Forseti hringir.) miðað við þá rammaáætlun og þá áætlun sem liggur fyrir og verður hugsanlega samþykkt?