141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var einmitt þetta sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um, þ.e. hvað við erum upptekin af því að horfa á eigin nafla og sjáum því ekki heildarmyndina. Við búum öll á sömu jarðkúlu, í Kína er verið að framleiða ál í stórauknum mæli og víðar um heim með brennslu jarðgass og heilu fjallanna af kolum og annars slíks sem veldur gífurlegri mengun miðað við þá framleiðslu sem hér fer fram. Það er einmitt það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann, hvort við þurfum ekki að líta meira til þess hversu hrein orka okkar er og hversu mikil skylda hvílir á Íslandi að framleiða á Íslandi þessa hreinu orku. Sömu vörur eru framleiddar annars staðar með gífurlegri mengun sem berst náttúrulega hingað eins og á aðra staði. Ég ætlaði fyrst að spyrja að þessu.

Svo eru það jarðvarmavirkjanir. Mikið af þeim vandamálum sem þar koma upp hafa verið leyst. Þau hafa til dæmis verið leyst með Bláa lóninu. Þar var mengun til að byrja með og svo kom það allt í einu fram sem jákvæð aukaafurð virkjananna vegna Hitaveitu Suðurnesja. Það má vel vera að þegar upp er staðið munu margar af jarðvarmavirkjunum framleiða aukaafurðir, eins og t.d. brennisteinsvetni, sem eru í eðli sínu verðmæt frumefni ef hægt er að vinna þau. Ég held að menn þurfi að skoða þetta.

Það sem mig langar fyrst og fremst að spyrja hv. þingmann er þetta: Af hverju heldur hún að menn séu svona fastir í því að líta á Ísland sem eyland, eins og það sé á sérhnetti og komi ekkert við hvað gert er annars staðar í heiminum? Um allan heim er verið að framleiða ál, geyma gögn og nota orku meðan hérna er verið að potast í því að hindra að menn noti hreina orku.