141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

tóbaksvarnir og verslun með áfengi og tóbak.

499. mál
[20:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, og lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak. Markmið frumvarpsins er að draga úr neyslu á reyklausu tóbaki og heilsutjóni sem af slíkri neyslu hlýst, en rannsóknir hafa sýnt að neysla reyklauss tóbaks getur leitt til ýmissa sjúkdóma. Í ljósi reynslunnar í öðrum löndum þar sem neysla munntóbaks hefur aukist á umliðnum árum og í ljósi aukinnar neyslu ungs fólks á íslenska neftóbakinu sem munntóbaki er talið nauðsynlegt að binda í lög hömlur á frekari markaðssetningu á vöruþróun reyklauss tóbaks.

Ætlunin er að mynda nokkurs konar varnarlínu svo reyklausar tóbaksvörur sem ekki hafa verið á íslenskum markaði eða seldar af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins komist ekki í sölu hér á landi. Það er gert til að verja ungt fólk fyrir frekari tóbaksnotkun. Unnið er að gerð opinberrar stefnu í tóbaksvörnum á vegum velferðarráðuneytisins en þrátt fyrir það þykir nauðsynlegt að koma að brýnum lagabreytingartillögum eins og þeim sem hér um ræðir.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru að í tóbaksvarnarlög verði tekið upp ákvæði um bann við innflutningi, framleiðslu og sölu tóbaksvara sem sérstaklega er beint að ungu fólki með tilliti til bragð- og lyktarefna, útlits, stærðar og lögunar umbúða, heitis vöru og markaðssetningar og framsetningu hennar að öðru leyti. Samhliða því er lagt til að ákvæði um vöruval tóbaks verði tekið í lög um verslun með áfengi og tóbak og er það sambærilegt núgildandi ákvæði þeirra laga um vöruval áfengis. Þar er lagt til að ÁTVR fái lagaheimild til að hafna tilteknum tóbaksvörum svo hægt sé að framfylgja með virkum hætti áherslum stjórnvalda í tóbaksmálum.

Aðrar breytingar sem frumvarpið felur í sér eru skýrari markmiðssetning með áherslu á að unnið skuli gegn tóbaksnotkun ungs fólks. Undanþága sem heimilar innflutning, framleiðslu og sölu á skrotóbaki er felld brott en ÁTVR hefur ekki haft slíkt tóbak til sölu undanfarin ár. Mælt er fyrir um skýrari reglugerðarheimildir fyrir mælingar og prófanir á tóbaki og ef ekki er unnt að mæla eða gera viðunandi prófanir á tóbaksvöru skal hún ekki heimiluð hér á landi.

Að lokum er lagt til að ákvæði um neyslu reyklauss tóbaks í framhaldsskólum og sérskólum verði samræmt gildandi ákvæðum um tóbaksreykingar.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins en vil þó vekja athygli á að þar sem ákvæði þess fela í sér tæknilegar viðskiptahindranir þarf frumvarpið að fara í kynningu á EES-svæðinu í samræmi við lög nr. 57/2000, um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og farþjónustu, áður en unnt verður að samþykkja lögin frá Alþingi, en sú kynning stendur yfir um þessar mundir.

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.