141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[11:24]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér eru nokkur atriði sem er verið að breyta og varða dómstóla. Í fyrsta lagi er lagt til að heimild til að skipa varadómara við Hæstarétt Íslands verði rýmkuð. Annars vegar að 70 ára aldurshámark taki ekki til setningar varadómara í tiltekið mál eða til skemmri tíma, allt að einu ári. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að fjöldi héraðsdómara verði áfram 43 út árið 2013 en eftir þann tíma verði ekki skipað í þau embætti sem losna uns fjöldi dómara verði 38. Dómurum við Hæstarétt var fjölgað tímabundið með lögum frá því 2011 í 12 en sú fjölgun gengur til baka með því að skipa ekki í embætti dómara sem losna frá 1. janúar 2013. Þá er lagt til að lögfest verði tímabundin heimild til ársloka 2016 um að setja varadómara til að taka sæti í einstökum málum þótt ekkert sæti dómara sé autt. (Forseti hringir.) Þetta var rætt talsvert fyrir umræðuna í gærkvöldi og ákváðum við að kalla málið inn í nefnd á milli umræðna til að skoða það sérstaklega hvort heimildin sé jafnvel of rúm og (Forseti hringir.) hvort ætti að hafa styttri tíma en fjögur ár.