141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

Íslandsstofa.

500. mál
[16:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála öllu sem hv. þingmaður sagði hér áðan um Íslandsstofu og sömuleiðis um nauðsyn þess að festa reksturinn með því að tryggja stofnuninni fastar tekjur.

Hv. þingmaður gat þess að skiptar skoðanir hefðu verið um þetta í nefndinni og vísaði í það álit sem mér fannst ákaflega vont frá fjárlagaskrifstofunni, en það er skoðun og hún er algjörlega lögmæt. Ég er bara ekki sömu skoðunar.

Hins vegar vissi ég af því að í fjárlaganefnd var verið að ræða þetta og þar hefur undanfarin ár verið umræða um að fella niður alla markaða tekjustofna. Það er út af fyrir sig aðferð og mér er það ekkert sáluhjálparatriði þó að hún yrði samþykkt að lokum. Ég virði fullkomlega starf fjárlaganefndar um það. Það var ástæðan fyrir því að ég, sem endranær er yfirleitt snöggur að koma mínum frumvörpum fram, beið fram á síðasta dag hins lögmæta frests sem hægt er að leggja fram mál án afbrigða til að sjá hvort frumvarpið sem ég hafði heyrt af í nefndinni yrði lagt fram. En það kom aldrei fram. Ég lagði því þetta frumvarp fyrir ríkisstjórnina og fékk það síðan í gegnum þingflokka. En ég tek fram að ég er algjörlega sáttur við þá breytingu sem á frumvarpinu hefur verið gerð.