141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Róbert Marshall) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki rétti maðurinn til að svara fyrir stuðning Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina. Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um er gert ráð fyrir því í 6. gr. frumvarpsins að minnisgreinar fyrir ríkisstjórnarfundi séu undanþegnar upplýsingarétti. Þegar sett var inn ákvæði um upptöku ríkisstjórnarfunda í breyttum og nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands var jafnframt gert ráð fyrir í 1. tölulið 6. gr. — af því að þetta mál var unnið samhliða því — að takmarkanir á upplýsingarétti giltu um upptökur.

Nú hefur verið horfið frá þeirri hugmynd, ekki er lengur meiri hluti fyrir því í þinginu að gera það. Frumvarpið tekur einfaldlega breytingum í framhaldi af því og samhliða því. Málið hefur verið unnið töluvert vel af nefndinni allri og svo hefur minni hópur tekið að sér að snurfusa það. Í þeim hópi eru ég, hv. þm. Lúðvík Geirsson og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, sem unnið hefur mjög gott starf í málinu eins og mörgum öðrum og mun örugglega geta svarað fyrir stuðning Hreyfingarinnar við ríkisstjórn Íslands á eftir.