141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

almannatryggingar.

495. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar sem fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá velferðarráðuneyti, Öryrkjabandalagi Íslands og Tryggingastofnun ríkisins. Þá hafa borist umsagnir frá Alþýðusambandinu, Samtökum atvinnulífsins, Tryggingastofnun og Öryrkjabandalaginu.

Í frumvarpinu er kveðið á um framlengingu á bráðabirgðaákvæði í lögum um almannatryggingar sem tryggja örorkulífeyrisþegum frítekjumark samkvæmt núgildandi bráðabirgðaákvæði, en ef ekki verður af þessari framlengingu mun frítekjumark örorkulífeyrisþega lækka.

Þá eru lagðar til tvær viðbótarbreytingar og það er annars vegar breyting á lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, en bráðabirgðaákvæðið felur í sér að kostnaður vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað og verndaðrar vinnu muni á árinu 2013 skiptast milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við samning þar um. Það er sem sagt verið að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði þannig að það nái einnig til ársins 2013. Í upphafi ársins 2011 voru málefni fatlaðs fólks færð frá ríki til sveitarfélaga. Kveðið var á um það í 28. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, að Vinnumálastofnun annist framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða fyrir fatlað fólk og í 30. gr. er tiltekið að kostnaður vegna verndaðrar vinnu greiðist úr ríkissjóði. Í ákvæði til bráðabirgða V í lögunum er þó kveðið á um að kostnaður sem til féll vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað og verndaðrar vinnu á árinu 2012 skiptist milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við samkomulag þeirra á milli. Þar sem enn er unnið að framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks leggur meiri hlutinn til að ákvæðið verði framlengt um ár.

Þá gerum við jafnframt tillögu um breytingu á framlengingu ákvæðis til bráðabirgða nr. VI í lögum um málefni aldraðra. Þetta ákvæði hefur verið framlengt árlega frá árinu 2007 til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Þessu var síðast breytt með lögum nr. 178/2011 og í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um þá breytingu er vísað til þess að frá því að lögum var breytt árið 2006 hafa tekjur maka ekki haft áhrif á bótafjárhæðir almannatrygginga. Sambærileg breyting var gerð á útreikningi greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Vegna þeirrar reiknireglu sem viðhöfð var við útreikninginn gat sú breyting í einhverjum tilvikum orðið til þess að greiðsluþátttakan jókst frá því sem áður var. Strax við setningu laganna árið 2006 var því lagt til að heimilt yrði að bera saman greiðsluþátttöku samkvæmt gildandi ákvæði og fyrra ákvæði og greiða það sem lægra reyndist.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með viðbótarbreytingum hvað varðar lög um málefni fatlaðra og lög um málefni aldraðra. Undir nefndarálitið rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þuríður Backman, Árni Þór Sigurðsson, Kristján L. Möller og Guðmundur Steingrímsson, með fyrirvara.