141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[14:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir það tækifæri sem við fengum í allsherjar- og menntamálanefnd til að fara betur yfir málið í heild sinni. Eins og ég kom að í ræðu minni við 1. umr. er ljóst að verið er að þrýsta á þingið að klára það, en það má segja að málið sem slíkt varði einvörðungu 3. gr. frumvarpsins. Annað er eitthvað sem hefði að mínu mati mátt fara betur yfir og við hefðum mátt nýta tímann til að skoða dómskerfið heildstætt, enda kom það í ljós á fundi nefndarinnar að álagið á Hæstarétt er gríðarlega mikið. Okkur var bent á mjög athyglisverðar tölur sem sýna að málafjöldi fyrir Hæstarétti Íslands árið 1995 var í kringum 400 mál, en í dag er fjöldinn líklega í kringum 750 eða nær 800 á árinu 2012. Það er mikil virðing borin fyrir Hæstarétti, þeim merkilega dómstól, en álagið er gríðarlega mikið. Því spyr maður eðlilega hvort réttaröryggi borgaranna sé ekki ógnað með því fyrirkomulagi sem nú er hjá Hæstarétti.

Ég vil draga það fram að við fengum tækifæri til þess að ræða þetta aftur í nefndinni og ég fagnaði því strax í upphafi. Það er ekki síst formanni nefndarinnar að þakka en hann beitti sé fyrir því að við fengum tækifæri til að fara betur yfir málið með fólki úr ráðuneytinu sem þekkir vel til og ekki síður með lögmönnum og hæstaréttardómurum sem eru líka þessum heimi vel kunnugir. Það voru Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason, auk Bryndísar Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti sem fóru yfir málin og athyglisverðar staðreyndir.

Ég skil við hvaða vanda er að etja. Það bíður væntanlega mikill málafjöldi Hæstaréttar vegna mála sem tengjast hruninu, þannig að álagið á dómstólakerfið mun verða mjög mikið alveg fram til 2015, 2016. Um leið þurfum við að taka tillit til þess að það er eindregin ósk og eindreginn vilji lögmanna, dómara og ýmissa annarra að stofna til millidómstigs, m.a. er þverpólitískur vilji fyrir því á þingi. Það er ótvírætt. Það er afgerandi að sjónarmið okkar sem sitjum í hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd er í þá veru að við viljum stofna millidómstig, enda hef ég lagt fram þingsályktunartillögu til að ýta innanríkisráðherra af stað í þá vegferð.

Það verður að segja eins og er að ég er afar sorgmædd yfir því að tækifærið skuli ekki hafa verið nýtt af hálfu hæstv. innanríkisráðherra til að setja á laggirnar millidómstig. Af hverju eru menn enn þá að humma þetta fram af sér? Af hverju? Það lá fyrst fyrir á stórum fjölmennum fundi lögmanna, lögfræðinga, dómara og fleiri árið 2010, sem haldinn var að tilstuðlan innanríkisráðuneytisins. Þar var afgerandi að menn vildu koma á millidómstigi og ekki bara í sakamálum eins og margir vildu meina fyrst heldur líka í einkamálum. Síðan var starfshópur af hálfu innanríkisráðherra skipaður. Niðurstaða hans var algjörlega ótvíræð, það ætti að setja á laggirnar millidómstig. Síðan yfirfór nefnd störf starfshópsins. Hún komst líka að sömu niðurstöðu. Af hverju í ósköpunum, í ljósi þeirra aðstæðna sem núna eru uppi, er þá ekki búið að fara af stað í þessa vegferð? Ég hefði gjarnan viljað sjá það. Það er allt til. Það kom fram í nefndinni að öll gögn liggja fyrir um þetta mál þó að ljóst sé að menn vilji fara mishratt í þetta.

Ég er þeirrar skoðunar að þau gögn liggi fyrir sem þarf til að við getum með traustvekjandi hætti komið á laggirnar millidómstigi; þekkingin er til staðar og rannsóknirnar. Þess vegna skil ég ekki þennan hægagang af hálfu hæstv. innanríkisráðherra. Þetta skiptir miklu máli í umræðu um þetta mál. Að því leytinu til reynir maður að gæta ákveðinnar sanngirni þegar maður horfir á þetta mál lagt fram af hálfu ráðuneytisins, það vill setja upp varadómarakerfi með þeim hætti að það ógni ekki framgangi millidómstigsins eða hægi á því. Gott og vel. Það er að mörgu leyti skiljanlegt.

Það skal líka dregið fram að við erum með þessum hætti að festa í sessi ákveðið varadómarakerfi sem má ræða enn betur en gert hefur verið. Sumir hafa sagt og einn af gestum nefndarinnar, Jón Steinar Gunnlaugsson, dró það mjög skýrt fram að það varadómarakerfi sem nú er notað er varhugavert. Ég tel mikilvægt að menn leggi við hlustir þegar röksemdafærslan er sú að dómarar þurfi að hafa sjálfstæði. Þrígreining ríkisvaldsins er eitthvað sem við höfum undirbyggt í samfélagi okkar og í lýðræðishefð okkar, þó að það sé mismikill áhugi á henni til dæmis af hálfu núverandi ríkisstjórnar — þá er ég að vísa til stjórnarskrárumræðna í þinginu. En gott og vel.

Dómarar þurfa að hafa sjálfstæða sögu. Þeir þurfa að hafa sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þeir þurfa líka að hafa sjálfstæði gagnvart löggjafarvaldinu. Því er ekki heppilegt að innanríkisráðherra skipi dómara til afmarkaðra mála eins og hann fær ótvírætt heimild til í frumvarpinu. Einhver kann að segja: Þetta fyrirkomulag er núna til staðar varðandi varadómarana. Já, það er til staðar, þess vegna eigum við að fara betur yfir það. Það er samt verið að víkka það út með heimildinni í 5. gr., sem snertir það að þrátt fyrir að ekki sé um vanhæfi að ræða eða skort á dómurum eða því um líkt, sem verður til þess að það þurfi að skipa varadómara, er engu að síður möguleiki fyrir innanríkisráðherra að ábendingu Hæstaréttar að skipa varadómara. Ég held að þetta sé vont upp á Hæstarétt að gera sem slíkan, upp á sjálfstæði hans gagnvart innanríkisráðuneytinu. Menn segja: Já, en það verður aldrei af þessu nema að Hæstiréttur komi að máli við innanríkisráðherra. Sú tenging er samt vond af því á endanum verður það innanríkisráðherra, framkvæmdarvaldið, sem ber hina pólitísku ábyrgð og hina faglegu ábyrgð á því gagnvart Hæstarétti að skipa varadómara þó að það verði ekki gert nema að tilstuðlan Hæstaréttar. Ábyrgðin er eftir sem áður hjá innanríkisráðherra.

Þess vegna vil ég fagna því sem kom fram hjá þeim gestum sem komu á fund nefndarinnar. Allir höfðu miklar áhyggjur af þeim málafjölda sem hvílir á Hæstarétti og að sjálfsögðu er líka eðlilegt að við tökum þessa stóru umræðu um það hvernig skipa á Hæstarétt með tilliti til hugsanlegs millidómstigs. Eigum við, eins og bent hefur verið á, að vera með Hæstarétt sem dæmir ekki í allt að 800 málum á ári eins og allt virðist stefna í heldur aðeins í sérstökum fordæmismálum og þar sitji fimm eða kannski sjö dómarar? Hæstiréttur dæmi hugsanlega í 50, 60, 70 málum á ári sem gefi í alvöru fordæmisgefandi niðurstöðu en millidómstigið sjái um önnur mál. Það er auðvitað mikilvægt og er grundvallarregla í hverju réttarríki að hægt sé að skjóta málum til æðra dómstigs. Það verður náttúrlega að vera hægt þegar niðurstaða liggur fyrir í héraðsdómi.

Við þurfum að fara yfir þetta. Ég mun beina því til formanns nefndarinnar. Ég skynjaði það á fundi nefndarinnar í gær að það sem kom þar fram vakti nefndarmenn til mikillar umhugsunar. Það verður mikilvægt fyrir okkur sem þar erum að taka opinskáa og hreinskipta umræðu um aðbúnað Hæstarétts í dag með tilliti til málafjöldans en líka með tilliti til þess skipulags sem nú er og hvernig við getum haldið áfram að styrkja Hæstarétt og viðhalda þeirri virðingu sem hann nýtur í samfélaginu.

Þegar skipulag Hæstaréttar er með þeim hætti að efast má um réttaröryggi borgaranna sé varið, m.a. út af álagi, þarf að fara betur yfir þetta. Með þessu er ég ekki að gagnrýna hæstaréttardómara með einum eða neinum hætti, við verðum hins vegar að líta til sögunnar. Meðal annars var bent á dóma Hæstaréttar í gengismálum sem á nýliðnum vetri féllu 4:3. Þar veiktist einn hæstaréttardómari í fyrri dóminum og annar kom inn og féll dómurinn með öðrum hætti í þeim seinni. Það er ekki mikill fyrirsjáanleiki eða staðfesta í slíku fyrir okkur sem erum borgarar í landinu. Þess vegna vil ég gera það sem hægt er af hálfu löggjafarvaldsins til að styðja og styrkja Hæstarétt. Ég held einmitt að umræða innan nefndarinnar um að eiga samtal við þá sem koma að réttinum eða hafa reynslu af því að hafa starfað þar sé mikilvægt, það er að minnsta kosti fyrsta skrefið.

Hvað þetta mál varðar mun ég styðja 3. gr. eins og hefur komið fram í mínu máli fram til þessa. En vegna þess grundvallarprinsipps að við þurfum að undirstrika sjálfstæði Hæstaréttar og að hver og einn dómari hafi sjálfstæða sögu tel ég varhugavert að stíga það skref sem stigið er í 5. gr. án þess að athuga betur reynsluna og málafjöldann og fá þær raunverulegu tölur sem um ræðir eða hugsanlega kunna að koma til Hæstaréttar varðandi varadómara. Ég mun því sitja hjá hvað það varðar, en um leið hef ég skilning á því að menn eru að reyna að koma til móts við það ástand sem nú varir innan dómskerfisins. Það leysir okkur samt ekki undan þeirri ábyrgð að taka á því stóra máli að tryggja réttaröryggi borgaranna. Hluti af því að tryggja réttaröryggi borgaranna er að koma á fót millidómstigi. Það er algjörlega óskiljanlegt hvernig hæstv. innanríkisráðherra hefur hummað það fram af sér og að það eigi hugsanlega að draga það fram til ársins 2015/2016 er óásættanlegt. Ég vildi tengja þetta sérstaklega við þetta mál sem ég hef hér rakið og afstöðu mína til þess. Um leið þakka ég hv. þingmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir þá opinskáu umræðu sem við áttum um þróun réttarkerfisins á Íslandi.