141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

dómstólar o.fl.

12. mál
[16:07]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ástæða er til að árétta það að hér er skeytt við endurupptökunefnd: er sjálfstæð stjórnsýslustofnun. Og aftur er nauðsynlegt að koma því á framfæri að verið er að undirstrika að hún er mjög sjálfstæð í sínum störfum, sem er kjarninn í þeirri miklu réttarbót sem hérna gengur fram. En henni er engu að síður ætlað að fara eftir stjórnsýslulögum og fellur nefndin einnig undir hefðbundið eftirlit þingsins, eins og ég nefndi áðan um atkvæðagreiðsluna, og þegar nefndin synjar um endurupptöku er nauðsynlegt að því fylgi ítarlegur rökstuðningur.

Það er ástæða til að taka undir þakkir til stuðningsmanna og þeirrar einbeittu eftirfylgni sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og 1. flutningsmaður viðhafði í málinu og ýtti þessu með okkur í gegnum það góða ferli. Málið þroskaðist mjög vel í meðförum þingmanna, nefndar og ráðuneytis, og er eitt fjölmargra góðra þingmannamála sem við höfum afgreitt út úr nefndinni sem og mörgum öðrum þingnefndum á liðnum missirum.