141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur svolítið verið reynt að dæma okkar góðu stjórnarskrá úr leik með því að segja að þetta sé ekki íslensk stjórnarskrá. Stjórnarskráin er íslensk. Hún var samþykkt á Þingvöllum 1944 á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram og þar sem hér um bil hver einasti atkvæðabær maður sem tók þátt í henni galt jáyrði við stjórnarskránni.

Það er rangt sem segir reyndar í nefndaráliti að við höfum fyrst fengið stjórnarskrá þegar einveldi var afnumið í Danmörku árið 1849. Það er mjög mikill misskilningur. Gekk ekki sjálfstæðisbarátta Íslendinga og barátta Jóns Sigurðssonar einmitt út á að við fengjum stjórnarskrá? Þetta var einhliða tilskipun konungs og var auðvitað ekki stjórnarskrá í þeim skilningi fyrir okkur.

Áhyggjuefni mitt í þeim efnum, svo ég ítreki það enn og aftur, er einfaldlega sú staða sem málið er svo bersýnilega komið í. Við skulum leggja til hliðar deilur um það hverjum sé um að kenna, hvort sem það er stjórninni eða stjórnarandstöðunni. Það sem blasir við okkur er eftirfarandi:

Það er mikill ágreiningur um málið. Ágreiningurinn er innan þingsins. Það er ekki bara einhver óbilgjarn minni hluti eins og menn segja hér heldur hafa komið fram miklar athugasemdir til að mynda frá þingnefndunum sem hefur ekki verið tekið tillit til nema að hluta til, jafnvel ekki frá meiri hlutanum. Við sjáum það einnig, sem er líka gríðarlegt áhyggjuefni, að við erum komin svo ótrúlega stutt í mörgum efnum í hinni efnislegu vinnu. Það á til dæmis við um auðlindaákvæðið og ýmis önnur ákvæði þar sem við erum, ég segi nú ekki alveg á byrjunarreit en við erum komin ótrúlega stutt. Þess vegna finnst mér það, og ég vil ekki segja orðið sem kemur upp í hug minn, ótrúleg dirfska að láta sér detta í hug að fara í svona tilraunaferð með stjórnarskrána okkar á síðustu dögum þingsins.