141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

605. mál
[21:34]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndarálit með breytingartillögu á þskj. 1259, mál 605, um frumvarp til laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Málið kemur frá atvinnuveganefnd.

Nefndin fékk til sín fjölda gesta. Með frumvarpinu er lögð til ný heildarlöggjöf sem ætlað er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Markmið þess er því að hrinda af stað markvissum aðgerðum til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum með aukinni notkun endurnýjanlegs eldsneytis. Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins um endurnýjanlega orku í samgöngum og vistvænt eldsneyti. Fyrri tilskipunin lýtur að heildarmarkmiði Evrópusambandsins um að 20% af orku almennt verði af endurnýjanlegum uppruna. Þá kveður tilskipunin á um að árið 2020 verði 10% af orku sem notuð er í samgöngum af endurnýjanlegum uppruna. Jafnframt er skilgreint þar hvaða orkugjafa og eldsneytistegundir megi nýta til að mæta markmiði um endurnýjanlega orku í samgöngum og öðrum greinum. Tilskipun 2009/30/EB fjallar um innihald og kröfur um gæði eldsneytis, þannig að mæta megi aukinni notkun endurnýjanlegs eldsneytis með þeirri tækni í bílvélum sem er fyrir hendi. Áhersla er lögð á að endurnýjanlegt eldsneyti sem notað er á markaðnum uppfylli vaxandi kröfu um samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Einnig þurfa söluaðilar að uppfylla kröfu um að losun gróðurhúsalofttegunda á hverja orkueiningu eldsneytis sem þeir dreifa dragist saman um 10% fyrir árið 2020.

Ég ætla aðeins að fjalla nánar um nokkur atriði í nefndarálitinu.

Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að söluaðila eldsneytis á Íslandi beri að tryggja að hinn 1. janúar 2015 sé minnst 3,5% af heildarorkugildi eldsneytis, sem hann selur til notkunar í samgöngum á landi á ári, endurnýjanlegt eldsneyti. Það hlutfall hækkar svo í 5% frá og með 1. janúar 2016. Til að skapa hvata til að vinna endurnýjanlegt eldsneyti úr lífrænum eða ólífrænum úrgangsefnum sem ekki er unnt að nýta til manneldis eða sem dýrafóður, svo sem úrgangi, húsasorpi o.fl., er jafnframt kveðið á um að slíkt eldsneyti megi telja tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis.

Nefndin telur brýnt að grípa til aðgerða sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum og leiða til orkusparnaðar. Þá bendir nefndin á að Ísland er nú þegar nokkuð á eftir nágrannaríkjum sínum á því sviði og mikilvægt að tryggja að það uppfylli skuldbindingar sínar.

Í nefndinni var nokkuð rætt um hvað teldist endurnýtanlegt eldsneyti og hvaðan það kæmi. Bendir nefndin á að í 1. gr. er hugtakið skilgreint sem eldsneyti sem er unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum sem ekki teljast til jarðefnaeldsneytis heldur eru af endurnýjanlegum lífrænum eða ólífrænum uppruna. Endurnýjanlegt eldsneyti getur þannig verið unnið m.a. úr vatnsorku, vatnsvarmaorku, jarðvarma, vindorku, sólarorku, sjávarorku, lífmassa, hauggasi, lífgasi og gasi frá skólphreinsistöðvum.

Þá er það skilgreining á sjálfbærni. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að ráðherra kveði á um viðmiðanir sem ráða því hvort framleiðsla lífeldsneytis teljist sjálfbær. Í skýringum við ákvæðið er vísað til þess að kveðið verði á um það í reglugerð en tilvísun til þess vantar í ákvæðið og leggur nefndin því til breytingu þess efnis. Við umfjöllun nefndarinnar um sjálfbærniviðmið komu fram sjónarmið um að setja mætti almenn lög um sjálfbærniviðmið sem væri þá unnt að vísa til í öðrum lögum. Óskað var upplýsinga frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti um hvort slík lagasetning hefði komið til álita. Fékk nefndin þær upplýsingar að slík lagasmíð gæti reynst flókin sökum umfangs efnisins og almenns eðlis slíkra laga. Nú þegar er búið að innleiða í lög upprunaábyrgðir vegna raforku sem eru að nokkru leyti öðruvísi en upprunaábyrgðir vegna eldsneytis.

Svo eru það fjárhagsleg áhrif. Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis er bent á að endurnýjanlegt eldsneyti ber ekki opinber gjöld í formi vörugjalda, svo sem bensíngjald og olíugjald, eða kolefnisskatta og því megi reikna með að tekjur ríkissjóðs muni dragast saman um rúmar 610 millj. kr. frá og með því tímamarki sem 3,5% heildarorkugildi verður endurnýjanlegt eldsneyti. Því til viðbótar gerir fjárlagaskrifstofan ráð fyrir 150 millj. kr. lægri tekjum af virðisaukaskatti af eldsneyti þannig að tekjutap fyrir ríkissjóð af þeim breytingum verði samtals 760 millj. kr.

Það komu fram ýmis sjónarmið í nefndinni um að eldsneyti sé oft selt til innlendra og erlendra aðila sem nota það nálægt landi og var vísað til skemmtiferðaskipa og annarra sjófara. Bent var á að eldsneytisbrennsla þeirra aðila hefur áhrif á umhverfið og ætti því að teljast hluti af heildarorkugildinu. Nefndin áréttar að markmið frumvarpsins er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi og á gildissvið þess því einungis við um slíkar samgöngur. Það er enn fremur áréttað í 3. gr. þar sem er vísað til eldsneytis sem er selt til notkunar í samgöngum á landi. Gildissviðið nær því til allra samgangna á landi en ekki annarra samgangna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 3. gr.

a. 1. málsliður 1. mgr. orðist svo: Söluaðila eldsneytis á Íslandi ber að tryggja að minnst 3,5% af orkugildi heildarsölu hans af eldsneyti til notkunar í samgöngum á öllu landinu á ári sé endurnýjanlegt eldsneyti.

b. Í stað orðanna „1. janúar 2016“ í 2. málslið 1. mgr. komi: 1. janúar 2015.

2. Á eftir orðunum „Ráðherra skal“ í 1. málslið 2. mgr. 4. gr. komi: í reglugerð.

3. Í stað orðanna „1. janúar 2015“ í 9. gr. komi: 1. janúar 2014.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason, Jón Gunnarsson, framsögumaður, Kristján L. Möller og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið með breytingartillögu rita eftirfarandi hv. þm: Sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Einar K. Guðfinnsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.