142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[21:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram og fjallar fyrst og fremst um stærðarmörk krókaaflamarksbáta, það er hryggjarstykkið í því ásamt öðru, og það frumvarp sem hann mælti einnig fyrir áður um framlengingu á bráðabirgðaákvæðum.

Margt í þessum frumvörpum er okkur vel kunnugt vegna þess að þessi mál voru til umræðu á vorþingi í tengslum við frumvarp um stjórn fiskveiða sem við kölluðum okkar á milli litla fiskinn. Hér er verið að taka á mörgu sem var inni í því frumvarpi en því miður lagðist stjórnarandstaðan þá gegn því að hleypa málinu í gegn þegar samið var um þinglok. Ég tel mjög miður að menn kláruðu ekki þessi mál eins og þau lágu fyrir í því frumvarpi því að margt annað var innifalið í því, ekki bara greinin um stærðarmörk á krókaaflamarksbátum.

Áður en ég kem að því að ræða stærðarmörkin vil ég nefna atriði sem voru í frumvarpinu á vorþingi sem hafa ekki verið tekin inn í þetta frumvarp og ég sakna. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef það er rangt.

Í því frumvarpi var rætt um aflaheimildir sem Byggðastofnun hefði til ráðstöfunar til stuðnings veikum byggðarlögum, um 1.800 tonn, byggðarlögum sem voru í miklum vanda. Mér þótti mjög miður að menn hefðu ekki sýnt samstöðu í vor og komið því máli í gegn.

Ég sakna einnig greinar sem var í hinu frumvarpinu sem kvað á um að strandveiðar yrðu settar í fasta hlutdeild. Það hefði þýtt að strandveiðar yrðu með 3,5% hlutdeild af heildarúthlutuðum afla og hefðu fengið sjálfkrafa við aflaaukningu sinn hlut til að stækka þann pott, í stað þess eins og er í dag að ákveða þurfi það sérstaklega.

Ég sakna líka þess að ekki er í þessu frumvarpi lágmarksdagafjöldi í strandveiðikerfinu eins og var í hinu frumvarpinu. Það hefði aukið öryggi þeirra sem eru á þessum litlu bátum á strandveiðum, sérstaklega fyrstu tvo mánuðina, þeir gætu valið sér fasta daga til að þeir þyrftu ekki að fara í samkeppni við stærri báta og öflugri þegar mánuðurinn hefst því þá er verið að taka áhættu í alls kyns veðrum sem eru mjög algeng í maí og júní, þ.e. fyrri hluta strandveiðitímabilsins.

Svo velti ég fyrir mér hvað hæstv. ráðherra hyggst gera varðandi mál sem var mikið rætt; aukinn meðafla í ýsu. Hvernig á að takast á við þann vanda sem menn standa frammi fyrir þar? Á því máli var tekið með ákveðnum hætti í hinu frumvarpinu.

Svo sakna ég þess líka að ekki sé tekið á því að strandveiðiflotinn fari ekki til veiða fyrr en á hádegi á mánudegi eftir sjómannadag, til samræmis við lög um sjómannadag frá 1987. Það kom fram í frumvarpinu sem var til umfjöllunar í vor. Miðað við það sem kom upp á mínum heimaslóðum á Vestfjörðum var mikil óánægja með að hluti strandveiðiflotans braut þau lög sem menn töldu að væru í gildi. Sumir vildu fara eftir lögum og fóru ekki af stað fyrr en eftir hádegi en aðrir fóru fyrir hádegi sem var brot á lögum um sjómannadag. Ég tel mjög brýnt að skýrt sé að þetta eigi líka við strandveiðiflotann og allir sitji við sama borð.

En aðeins um umræðuna um stærðarmörk krókaaflamarksbáta. Við sem vorum í atvinnuveganefnd, en ég stýrði henni í forföllum hv. þm. Kristjáns Möllers, vissum að mjög skiptar skoðanir væru um hvað það þýddi að fara út í þessa stækkun. Þetta var ekki eins einfalt og kannski leit út við fyrstu sýn. Umræðan var þannig að það væri einungis verið að auka öryggi þeirra sem væru á minni bátunum með því að leyfa stækkun bátanna og bæta aðstöðu um borð. En þetta sneri að miklu stærri hlutum og í raun og veru tilveru krókaaflamarkskerfisins og á hvaða forsendu yfir höfuð var lagt upp með það kerfi og það greint frá því sem við köllum stóra kerfið í sjávarútvegi.

Mig langar að rifja aðeins upp samantekt sem kom fram með hinu frumvarpinu á því hvernig þróunin hefur verið varðandi báta í krókaaflamarkskerfinu og stærð á þeim. Ég ætla að lesa upp úr greinargerð sem fylgir frumvarpinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt lögum nr. 129 20. desember 2001, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, var einvörðungu heimilt að flytja krókaaflahlutdeild á bát sem var undir 6 brúttólestum eða 6 brúttótonn hefði hann veiðileyfi með krókaaflamarki. Með 6. gr. laga nr. 85/2002, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, var þessum stærðarmörkum lyft í 15 brúttótonn“ — það er eins og þetta er í dag. „Við breytinguna komu þau ákvæði í lög um stjórn fiskveiða sem nú standa óbreytt í 2. málsl. 6. mgr. 12. gr. gildandi laga og hljóða svo:

„Krókaaflahlutdeild verður aðeins flutt til báts sem er undir 15 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki.“

Í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2002, sagði að 6 brúttólesta eða 6 brúttótonna takmörkunin væri „talin of þröng, m.a. af öryggisástæðum“. Þá sagði einnig að breyting á stærðarmörkunum væri reist á tillögum nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem starfaði samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða. […] Við þetta má bæta að allnokkur umræða varð um stærðarmörkin við meðferð frumvarpsins í þinginu og í þingnefnd. Niðurstaðan um 15 brúttótonn var niðurstaða samkomulags með þingmönnum í ríku samráði við hagsmunaaðila.“

Síðan eru sem sagt liðin tíu ár. Þarna varð að niðurstöðu að einhvers staðar yrði að draga línuna á milli stærðar báta í stóra kerfinu og litla kerfinu vegna þess að það er greinarmunur á. Í krókaaflamarkskerfinu veiða menn eingöngu á króka en hafa ekki heimild til að veiða með öðrum veiðarfærum. Þar eru menn á bátum sem þarf einungis að hafa skipstjóra og vélstjóra. Ef maður er kominn með 30 tonna bát er gerð krafa um skipstjóra, stýrimann og vélstjóra. Allt veldur þetta meiri kostnaði sem fylgir því að vera á stærri bát vegna þess að það þarf stærri áhöfn og menn verða að fara eftir lögum sem að því lúta.

Þeir sem eru í greininni, í krókaaflamarkskerfinu, hafa lýst miklum áhyggjum af því að með því að fara út í stækkanir á bátunum verði tilhneigingin og þróunin sú að aflaheimildir safnist á stærri bátana. Minni bátar verði keyptir upp og samþjöppun verði innan kerfisins, sem var ekki meiningin. Það að hafa þetta kerfi um smábátana var gert til að styrkja þá meðfram stóra kerfinu.

Það er ekki svo að menn séu á móti bættri vinnuaðstöðu um borð í bátum í þessu kerfi eða vilji ekki öryggi sjómanna sem mest heldur það að ef menn horfa til þess að hafa tvö kerfi verða þeir líka að taka það súra með því sæta. Einhvers staðar verða mörkin að liggja. Nú veit ég og hef heyrt af því að mönnum þyki jafnvel ekki nægjanlegt að fara upp í 15 metra og 20 brúttótonn, þrýstingur sé á að fara allt upp í 30 brúttótonn. Þá skulu menn hafa í huga að þá eru þeir líka að tala um fleiri í áhöfn með tilheyrandi kostnaði. Því fylgir líka hætta á að menn séu í raun og veru að kljúfa samstöðu og brjóta upp krókaaflamarkskerfið sem ég held að hafi verið samstaða um, þvert á pólitískar flokkslínur.

Ég veit mætavel að innan Landssambands smábátaeigenda, og í öðrum félögum sem sjómenn í krókaaflamarkskerfinu eru meðlimir í, eru gífurlega deildar meiningar um þessi mál og ég veit að hæstv. ráðherra veit vel af því. Menn voru búnir að fara í öll þessi félög og meiri hluti á þeim félagsfundum samþykkti að standa vörð um þau stærðarmörk sem voru fyrir. En menn horfðust í augu við að það voru bátar sem búið var að stækka umfram leyfilegar heimildir og það þurfti einhvern veginn að skýra löggjöfina betur.

Ég vildi viðra þessi sjónarmið vegna þess að þó að sterkur hávær hópur hafi talað fyrir þessum breytingum og stækkunum í nafni öryggis og bættrar vinnuaðstöðu hangir miklu meira á spýtunni, nokkuð sem ég veit að þeir sem vinna í þessari grein gera sér grein fyrir og hafa talað fyrir og eru óttaslegnir um að þetta verði ekki til góðs fyrir greinina.

Svo held ég að menn verði líka að gera það upp við sig hvort þeir vilji vera í stóra eða litla kerfinu burt séð frá því hvað gildir í dag. Í stóra kerfinu geta menn byggt báta og keypt báta með allt annarri aðstöðu heldur en nokkurn tíma verður í minni bátunum. Það verður auðvitað alltaf munur þar á. Menn verða að miða sjósókn sína við stærð bátsins og fara ekki fram úr sér þar, gera sér grein fyrir vályndum veðrum og að þeir séu á bátum, þó þeir séu orðnir fullkomnir og með öflugar vélar, sem þarf að fara gætilega á og gæta þess að sækja ekki of stíft á miðin.

En ég hlakka til að fjalla um þessi mál í nefndinni. Ég taldi rétt að rifja upp þessa sögu til að sýna fram á að þetta er ekki alveg eins einfalt og kannski virðist við fyrstu sýn fyrir þá sem hafa ekki fylgst svo grannt með þessu. Ég er mjög döpur yfir því að ekki var hægt að afgreiða frumvarpið sem við ræddum hér í vor í heild sinni, með þeim mörgu málum sem voru innifalin í því, og tel að það hafi ekki verið nógu vönduð vinnubrögð að láta ekki reyna þar á lýðræðislegan meiri hluta í þingsal.