142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins á Íslandi haustið 2008 hækkuðu verðtryggðar skuldir og eignaverð lækkaði, meðal annars vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins. Mikill meiri hluti íslenskra heimila fjármagnar kaup á íbúðarhúsnæði með verðtryggðum lánum. Fjárfesting í húsnæði er algengasta sparnaðarform íslenskra fjölskyldna og hefur almennt verið litið á íbúðarhúsnæði sem eignamyndun yfir lengri tíma. Að sama skapi fer umtalsverður hluti ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnað.

Við ákvörðun um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði leggja heimili landsins ákveðnar forsendur til grundvallar, forsendur sem snúa einkum að áætluðum ráðstöfunartekjum, fjármagnskostnaði, áætlaðri eignamyndun o.s.frv. Í aðdraganda og í kjölfar falls bankanna brustu þessar forsendur að miklu leyti með lamandi áhrifum á heimilin.

Við aðgerðir eins og þær sem boðaðar eru í þingsályktunartillögunni er mikilvægt að horfa til margra þátta sem geta valdið óvissu og áhættu. Mikilvægast er að þeir séu uppi á borðinu og litið sé til þeirra við mat á áhrifum og þeir vegnir saman við jákvæð áhrif sem breytingar koma til með að skila.

Nokkrir af þeim þáttum sem nauðsynlegt er að horfa til við útfærslu og framkvæmd tillagna um skuldaleiðréttingu eru:

Kostnaður við aðkomu ríkissjóðs.

Peningamagn í umferð og áhrif á verðbólgu.

Áhrif á skipulag fjármálakerfisins og kostnað þess við framkvæmd tillagnanna.

Einnig verður að horfa til jákvæðra áhrifa á hagkerfið, til að mynda aukinna gæða í lánasöfnum fjármálastofnana, minni umsýslu fjármálastofnana vegna færri vanskilamála o.s.frv. Einnig mun kerfisbreyting úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð hafa í för með sér að vaxtastig í landinu verður stöðugra þar sem breytingar á vöxtum munu hafa skjótvirkari áhrif. Slík breyting hefur jákvæð áhrif á hagkerfið í heild. Með þessu móti verður hagstjórn skilvirkari. Þekkt er að verðtrygging viðheldur verðbólgu.

Virðulegi forseti. Eins og fyrr segir eru aðgerðirnar tíu. Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir hverri þeirra:

1. Sérfræðingahópur útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi.

Tillögurnar verði tilbúnar í nóvember og eiga að miða að því að leiðrétta þann forsendubrest sem varð með aukinni verðbólgu árin 2007–2010 í kjölfar falls fjármálakerfisins. Breyting á vísitölunni hafði umtalsverð áhrif á stöðu húsnæðisskulda. Einnig er markmiðið að hvetja lántakendur til að umbreyta lánum sínum í óverðtryggð lán gegn leiðréttingu á höfuðstól, þó að það sé ekki endilega skylda að þetta haldist í hendur.

Gert er ráð fyrir að eftirfarandi forsendur muni meðal annars liggja til grundvallar vinnu sérfræðingahópsins:

Um er að ræða almennar aðgerðir sem gagnast öllum heimilum sem urðu fyrir forsendubresti.

Um sé að ræða leiðréttingu á forsendubresti.

Koma þarf upp skýrum hvötum lántakenda til að breyta fjármögnun í óverðtryggð lán.

Leiðrétting sé sú sama hvort sem lán hafi verið í skilum allan tímann eða ekki.

Kostir og gallar metnir við að setja þak á þá fjárhæð leiðréttingar sem hvert heimili getur notið til að stuðla að jafnræði í framkvæmd.

Metið verði hvort leiðrétting verði valkvæð að frumkvæði lántaka.

2. Gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána.

Ef bið verður á því að samningar náist við kröfuhafa þarf að skoða þann möguleika að setja á fót leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána til að aðgerðir í þágu lántaka komist til framkvæmda og til að tryggja gagnsæi og eftirlit með leiðréttingunum. Teymi sérfræðinga verði falið að leggja fram tillögur um útfærslu og fjármögnun sjóðsins og skili tillögum í nóvember.

3. Kannað verði hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir.

Í þeim tilvikum þar sem fólk býr í eigin yfirskuldsettu húsnæði og hefur sannarlega ekki getu til að standa undir húsnæðisskuldbindingum sínum þarf að leita leiða til að losa það undan kröfum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Í slíkum tilvikum er gjaldþrot mögulegt en réttaráhrif þess eru mun víðtækari og meira íþyngjandi fyrir skuldarann en gert er ráð fyrir með þessari leið.

4. Skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála.

Verkefnisstjórn verði falið að koma með tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Þá verði henni falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, meðal annars með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa. Meðal annars verði skoðaðar fyrirmyndir frá Norðurlöndunum. Verkefnisstjórnin skal skila tillögum í upphafi árs 2014.

5. Lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu.

Innanríkisráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að sett verði tímabundið ákvæði til bráðabirgða í lög nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem skýrt er tekið fram að dómara verði heimilt að taka mál þar sem ágreiningur lýtur að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu til skjótrar meðferðar.

Í þeirri heimild felst að slík mál skuli strax tekin til meðferðar og allir frestir í máli eiga að vera eins stuttir og mögulegt er með tilliti til aðstæðna sem og að dómur í slíku máli liggi fyrir eins fljótt og auðið er.

6. Sett verði á fót nefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum.

Ljóst er að langtímahagsmunum lántaka er betur borgið til lengri tíma með því að umbreyta lánum í óverðtryggð lán. Auk þess eru hagfræðileg rök sem lúta að peningamálastjórn í landinu þess efnis að skilvirkara sé að hafa áhrif á einkaneyslu í kerfi þar sem óverðtryggð lán eru stór hluti útgjalda heimilanna. Það er betra fyrir hagstjórn ef fjármagnskostnaður er greiddur jafnóðum í stað núverandi fyrirkomulags þar sem fjármagnskostnaði er velt inn í framtíðina.

Koma þarf til móts við aukna greiðslubyrði í kjölfar þess að áfallnir vextir af lánum verða greiddir jafnóðum. Þar sem greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hærri til að byrja með en af verðtryggðum lánum mun þessi aðgerð hafa takmörkuð áhrif til þenslu og verðbólgu.

Verkefni nefndarinnar sem skilar tillögum fyrir lok árs 2013 verður að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána. Nefndin meti áhrif þessara breytinga í víðum skilningi og geri tillögur til þess að lágmarka neikvæð áhrif. Að sjálfsögðu er það líka hlutverk nefndarinnar að gera ráðstafanir þannig að kostirnir nýtist til fulls fyrir heimilin og hagkerfið í heild.

7. Kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu.

Með þessari aðgerð komi ríkið sérstaklega til móts við þá einstaklinga sem í ljósi fjárhagsstöðu sinnar geta ekki farið fram á gjaldþrotaskipti sjálfir vegna hárrar greiðslu tryggingar fyrir skiptakostnaði. Þetta gæti gerst með þeim hætti að ríkissjóður ábyrgist tryggingu og þar með greiðslu skiptakostnaðar í slíkum tilvikum.

8. Sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna mikilla tafa á endurútreikningi lána.

Um er að ræða úrræði í þágu skuldara til þess að styrkja stöðu þeirra gagnvart fjármálafyrirtækjum sem sjá um endurútreikning lána þeirra. Um leið ætti sektarmöguleikinn að vera hvetjandi fyrir fjármálafyrirtækin til að hraða slíkum útreikningum.

9. Stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota.

Með afnámi stimpilgjalda dregur úr kostnaði heimila við lántöku og einnig mun sú aðgerð auka hreyfanleika viðskiptavina milli banka og stuðla þannig að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.

Í skýrslu nefndar um neytendavernd á fjármálamarkaði sem skilaði skýrslu sinni til forsætisráðherra í apríl 2013 kemur fram að stimpilgjöld í lánaviðskiptum sé kostnaðarliður fyrir íslenska neytendur sem sé sjaldgæfur í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Jafnframt kemur fram að stimpilgjöld voru afnumin í Finnlandi árið 1998 og er það talið hafa aukið vilja viðskiptavina til að skipta um lánveitanda og þar með hreyfanleika þeirra.

10. Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Í frumvarpi sem lagt verður fram nú á sumarþingi verði lagðar til breytingar á lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, til að Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja í þeim tilgangi að vinna reglulega tölfræði um það efni og birta ársfjórðungslega. Slíkar upplýsingar munu stuðla að því að stjórnvöld átti sig betur á áhrifum fyrirhugaðra aðgerða.

Gert er ráð fyrir að ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna hafi eftirlit með verkefninu í heild en einstakir ráðherrar sem eiga sæti í henni beri ábyrgð á tilteknum aðgerðum og ríkisstjórnin sem heild muni vinna að framgangi þessara mála. Við vinnuna verði lögð áhersla á að leita eftir víðtækari sátt um þær leiðir sem farnar verða til að ná þeim markmiðum að taka á skuldavanda íslenskra heimila. Það er von mín að uppbyggilegar umræður um þetta brýna mál muni fara fram hér á Alþingi, bæði núna og þegar einstök mál sem tengjast aðgerðaáætluninni koma til kasta þingsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að við lok þessarar umræðu verði þingsályktuninni vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og síðari umr.