142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[16:30]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Fyrr í dag var sérstök umræða um hamfarir á Norðurlandi vegna kals í túnum. Mér heyrist menn almennt vera nokkuð sammála um alvarleika málsins og að ríkisstjórninni beri að bregðast við og koma til móts við bændur. Við erum fámenn þjóð og eigum að standa saman þegar út af bregður. Samhjálp og samvinna er greypt í þjóðarsálina og því megum við ekki glata. Eiginhagsmunir og pólitískt kapphlaup eiga ekki að ráða för þegar um heildarhagsmuni þjóðarinnar er að ræða.

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra lagt fram tillögu að þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Aðgerðaáætlun er í tíu liðum og kemur inn á mörg málefni. Ástæða þess að forsætisráðherra felur ríkisstjórninni að fylgja eftir þessari aðgerðaáætlun er ekki — ég endurtek: ekki — til að uppfylla kosningaloforð Framsóknarflokksins eins og nokkrir hv. þingmenn hafa kosið að túlka þessa útfærslu. Mér þykja slíkar upphrópanir á frekar lágu plani. Málið snýst um heill þjóðarinnar. Það snýst um að leiðrétta stökkbreytta höfuðstóla verðtryggðra húsnæðislána og til að tryggja stöðugleika og gagnsæi á húsnæðismarkaði til lengri tíma.

Ég vil vekja sérstaka athygli á þremur liðum í aðgerðaáætluninni, í fyrsta lagi að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Tillögur nefndar eiga að liggja fyrir í upphafi árs 2014. Annað er að fá sérfræðingahóp til að meta möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna tafa á endurútreikningi lána. Tillögur eiga að liggja fyrir í ágúst 2013. Þriðja atriðið er að stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota. Það frumvarp á að leggja fram á haustþingi 2013. Ég fagna þessum tillögum einlæglega og vona að þær nái fram að ganga.

Í dag er veruleikinn sá að þeir sem vilja koma sér upp þaki yfir höfuðið eiga oft á tíðum bara val á milli nokkurra slæmra kosta: Leigja á okurverði á óstöðugum leigumarkaði, taka verðtryggð lán fyrir húsnæðiskaupum á okurvöxtum eða óverðtryggð lán. Óverðtryggð lán eru valmöguleiki en eru á háum vöxtum og verðbólgan hefur einnig rokkað upp og niður alla tíð eins og nokkrir hv. þingmenn hafa bent á í dag þannig að þau eru ekki fýsileg. Hvað skal gjöra? Hlaupa á veggi í öngstrætum einsleits húsnæðis- og bankakerfis eða ryðja veginn? Ryðja veginn, segi ég. Almenningur er búinn að fá nóg, nóg af kyrrstöðu og vonleysi og nóg af þingmönnum sem virðast ekki vera að vinna fyrir fólkið í landinu, heldur vera uppteknir við að hlusta á sjálfa sig og koma höggi á andstæðinginn. En hver er andstæðingurinn? Andstæðingurinn erum við sjálf, þjóðin.

Ég var stödd í Vík í Mýrdal fyrr í vetur og gisti þar á hótelinu. Það er nú ekki í frásögur færandi nema ég þurfti að komast í tölvu um kvöldið og fékk að nota tölvuna í afgreiðslunni enda var langt liðið á kvöldið og flestir gestir gengnir til náða nema ég og byggingavinnuflokkur sem var að vinna við stækkun hótelsins. Ég heyrði á tal hópsins og þar var rætt um þjóðmálin vítt og breitt. Ungum byggingaverkamanni varð að orði, og með leyfi forseta, vitna ég í orð hans: Mér er eiginlega alveg sama hvernig kerfið er. — Þar átti hann við heilbrigðiskerfið. Hann bætti síðan við: Það þarf bara að virka.

Það er einmitt mergur málsins. Við erum þjóðkjörnir fulltrúar og við eigum að láta kerfið virka.

Nokkrir úr stjórnarandstöðunni fóru mikinn eftir stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra fyrr í vikunni. Þá var minn fyrsti þingdagur. Ég verð að viðurkenna að það kom á mig hvað heiftin virtist vera mikil gegn stefnu forsætisráðherra. Sama fólk og hefur talað mikið um að sýna samvinnu og að eiga samtal við þjóðina, sem var ansi vinsælt orðatiltæki fyrir kosningar.

Ein fræg fyrirsögn eftir stefnuræðuna var: Nefndir og engar efndir. Voðalega finnst mér súrt að fólk ætli sér að fara af stað í fyrirliggjandi stórverkefni með þessu hugarfari. Ættum við ekki að leyfa fólki að vinna vinnuna sína og leggja fram fullmótaðar tillögur á haustþingi? Ég held að fólk hljóti að vera sammála um að við verðum að vanda til verka þegar um svo stór og viðamikil mál er að ræða. Því borgar sig ekki að kasta til höndum og vera með óþarfa ýtni og æsing. Það er engum til gagns eða upphefðar.

Ég tel mig tala fyrir munn margra þegar ég biðla til stjórnarandstöðunnar um að styðja þetta mál. Leiðirnar sem hægt er að fara eru margar, en einhvers staðar verðum við að byrja til að höggva á hnútinn og leysa þjóðina úr skuldaklafanum sem er að kæfa okkur hægt og bítandi.

Ísland er land tækifæranna. Við viljum öll það sama, öryggi og hamingju. Gröfum stríðsaxirnar. Verum góð hvert við annað. Byggjum Ísland upp að nýju og höldum saman af stað inn í framtíð velmegunar og framfara.