142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta vera að þróast mjög neikvætt í þingsal. Hér erum við á lengsta degi ársins, björtum og fallegum föstudegi, og forseti telur það sæma að taka vel í beiðni um miðjan dag — við erum að tala um milli þrjú og hálffjögur — taka því bara mjög jákvætt að fella málið í þann farveg sem óskað var eftir, þ.e. að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé kölluð saman og ráðherrann kallaður á fund þeirrar nefndar. Það var tekið vel í það af forseta sem þá sat hér á stóli.

Svo gerist það þegar klukkan er að nálgast sex á þessum sama degi að það verður þessi vending í því hvernig forseti hyggst afgreiða og ljúka málinu gagnvart þinginu. Ég verð að lýsa mjög miklum vonbrigðum með það hvernig forseti heldur utan um þetta mál vegna þess að hér var ég í þeirri trú að við værum á sömu blaðsíðu, ef svo má að orði komast, að við teldum að þetta væri farsæll farvegur fyrir þetta mál vegna þess að nefndin hefur auðvitað þetta skilgreinda hlutverk. Hún er, eins og hér hefur komið fram, (Forseti hringir.) að þróa sinn vettvang en þetta er sannarlega hennar verkefni og ég vænti þess (Forseti hringir.) að hæstv. forseti tryggi að málið fari í þennan farveg í þeirri sátt sem var lagt upp með hér fyrr í dag.