142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt hjá hv. þingmanni að kannski má greina kosningaloforðin niður eftir því hvort þau voru svona töfraloforð um að gera stórkostlega hluti án þess að það kostaði nokkurn skapaðan hlut eða önnur eins og loforð Sjálfstæðisflokksins sem voru almennt meira á þeim nótum að lækka bara einfaldlega skatta. Þetta kostar sannanlega, því að enginn hefur fært mér heim neinar sannir um að tekjur rúlli inn á móti sem vegi það upp út af þessari litlu breytingu sem slíkri. Það er auðvitað fjarstæðukennt að reyna að halda slíku fram.

Ég hafði aldrei sömu trú, hafi hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerst veikur fyrir þeim loforðum að svona stórkostlegir hlutir gætu gerst, að hægt væri að lækka skuldir heimilanna um 250 til 300 milljarða án þess að þess sæi nokkurn stað í ríkisfjármálunum. Reynslan hefur kennt mér að það sem hljómar einhvern veginn of gott til að vera satt, það er yfirleitt ekki satt.