142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[19:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð yfir umræðu um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, á síðasta þingi.

Mig langar að spyrja hann vegna þess að hér er lagt til að breyta 9. gr. um skipan stjórnar RÚV.

Stjórn RÚV eins og hún er í dag er skipuð eftirtöldum aðilum, með leyfi forseta: Björg Eva Erlendsdóttir formaður, Margrét Frímannsdóttir varaformaður, Magnús Geir Þórðarson, Halldór Guðmundsson og Magnús Stefánsson. Í dagblaði ekki alls fyrir löngu nefndi hv. leikstjóri Ragnar Bragason, þegar þessi stjórn var skipuð, að í henni sæti einn faglegur aðili og það væri Magnús Geir Þórðarson.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason hvort hann telji að sú stjórn sem skipuð var með þessum hætti, og henni fylgja síðan varamenn sem ég ætla ekki að nefna hér, hafi ógnað sjálfstæði Ríkisútvarpsins, hvort þarna sé á ferðinni fólk sem hafi ólíka þekkingu, ólíka hæfni og ólíka reynslu. Ef ástæða þótti til að breyta stjórn Ríkisútvarpsins samkvæmt 9. gr. — ef ég man rétt þá var ég ein þeirra sem ræddu það og þótti sérkennilegt að tilnefna þessa valnefnd þegar það var gert — langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að núverandi stjórn eins og hún var skipuð, þ.e. fólki með ólíka þekkingu, ólíka hæfni og ólíka reynslu, hafi ógnað sjálfstæði stofnunarinnar. Þó vita menn mætavel hverjir eru þar inni og hverra pólitísku skoðana þeir voru.