142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það var gaman að hlusta á hv. þm. Björn Val Gíslason tjá sig um skoðanir og stefnu ríkisstjórnarinnar. Hér voru til umræðu í gær, undir dagskrárliðnum sérstök umræða, málefni Landspítalans þar sem bæði Vinstri grænir og Samfylkingin vilja ólm fara í að byggja nýjan landspítala fyrir upphæð á bilinu 70–80 milljarðar. Okkar tölur eru litlar í samanburði við það.

Hins vegar hef ég verið talsmaður þess síðan ég settist á Alþingi að hér fari fram vönduð lagasetning, virðulegi forseti, að hér verði vandað svo til verka við lagasetningu að ekki þurfi að koma til dómsmála eftir að Alþingi setur lög. Því miður hefur þetta farið alveg úr böndunum á nýliðnu kjörtímabili og hafa aldrei fleiri óvissumál verið leyst fyrir dómstólum.

Nú síðast gerðist það fyrir tveimur, þremur mánuðum að fyrirtækið Drómi ætlaði að sækja sér bætur til ríkisins vegna þess að hin svokölluðu Árna Páls-lög fóru í gegnum þingið sem voru brot gegn stjórnarskránni því að í þeim fólst afturvirkni á lagaákvæðum sem þar var að finna. Ég hef verið baráttumaður fyrir því að frumvörp sem koma fyrir þingið fái faglega umfjöllun og standist stjórnarskrá. Svo er nú komið í ljós að fjármálaráðuneytið hafnaði þessari beiðni um skaðabætur upp á 1.600 milljónir sem Drómi fór fram á og þá ætlar Drómi að sækja þetta fé til þeirra lántakenda sem eiga lán hjá þessu fyrirtæki.

Þarna er skýrt dæmi um það að alþingismenn sem samþykktu lögin hafa bundið ríkið í skaðabótaskyldu vegna þess að lögin stóðust ekki stjórnarskrá. Þess vegna er Drómi að beina sínum kröfum í ranga átt. Að mínu mati er ríkið skaðabótaskylt, miðað við lagatúlkun. Þess vegna er þetta mál allt saman mjög undarlegt.