142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að nefna það hér undir liðnum um störf þingsins hvað þær hafa glatt mitt litla hjarta þær fréttir sem berast af fundum okkar æðstu manna með kollegum sínum á meginlandi Evrópu. Hvar sem þeir drepa niður fæti er þeim tekið með kostum og kynjum og leggja forustumenn frændþjóða okkar á það ríka áherslu hversu mikið þeir meta samstarf þjóðanna. Það hefur ekki síst vakið athygli mína hversu einhuga þeir eru um að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.

Mig langar til að vitna í nokkra þeirra hérna, með leyfi forseta:

„Ísland er sterkt lýðveldi og náskylt Danmörku og því hefur það alltaf verið ósk Danmerkur að Ísland gangi í ESB,“ sagði Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, á fundi með (Gripið fram í.) hæstv. forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í vikunni.

Joachim Gauck, forseti Þýskalands, sagði í borðræðu sem hann flutti í tilefni opinbers hátíðarkvöldverðar til heiðurs forseta vorum og konu hans í gærkvöldi:

„Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er enn ein athyglisverð niðurstaða kreppunnar. Þér vitið að Þýskaland hefur alveg frá upphafi stutt aðild Íslands að ESB af fullum þunga. Sambandsþingið undirstrikaði þetta með þingsályktun sinni. En auðvitað vitum við líka að Íslendingar eru klofnir í afstöðu sinni til aðildar að ESB og að fram undan er að taka ákvörðun um framhald viðræðnanna. Kvöldið í kvöld má ekki líða án þess að ég segi eftirfarandi við yður: Það væri okkur mikil ánægja að geta boðið Ísland velkomið sem hluta af Evrópusambandinu.“

Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, sagði á fundi með hæstv. utanríkisráðherra á dögunum að ESB væri enn einhuga um að ljúka ferlinu. Afstaða sambandsins hafi verið ljós allan tímann og það hafi ekki aðeins viljann til þess heldur getuna til þess að ljúka þessu ferli.

Virðulegi forseti. Þessi ummæli áhrifamanna í Evrópusambandinu eru í algjörri andstöðu við það sem hæstv. forseti vor sagði í ræðu sinni hér á þingsetningardaginn. Það væri fróðlegt að vita hvaða evrópsku áhrifamenn það voru sem sannfærðu hæstv. forseta vorn um að ESB hefði hvorki viljann né getuna til að ljúka þessu mikla hagsmunamáli fyrir framtíð Íslands.